Handknattleiksdeild FH hefur ekki fengið staðfestingu á frestun leik FH og Fram í Olísdeild karla 17. mars, segir Ásgeir Jónsson, formaður Handknattleiksdeildar FH, vegna fréttar á handbolta.is í morgun þess efnis að Fram vilji fá frestað viðureign sinni við FH sem áætlað er að fari fram 17. mars. Ástæðan fyrir vilja Framara er sú að tveir færeyskir landsliðsmenn félagsins hafa ekki lokið sóttkví 17. mars eftir komu til landsins tveimur dögum áður.
„Eina sem við vitum, eftir viðtal við Sebastian á handbolta.is í dag, er að hann ætlar ekki að mæta til leiks 17. mars,“ segir Ásgeir samtali við handbolta.is.
„Samkvæmt mótfyrirkomulagi á leikurinn að fara fram 17. mars. Við höfum ekki fengið neina staðfestingu á öðru en að leikurinn fari þá fram,“ segir Ásgeir og minnir á að þétt sé leikið í deildinni og allar breytingar á núverandi niðurröðin því ekki einfaldar né vinsælar.
Hefur þú ekki skilning á því að Fram vilji ekki leika án færeysku landsliðsmanna sinna á móti FH ?
„Jú, ég hef fullan skilning á því, en það þarf þá að komast að góðu samkomulagi á milli félaganna með nýjan leiktíma þannig að við FH-ingar séum líka sáttir. Við hljótum að ræða saman og finna lausn, það er Fram, FH og HSÍ,“ segir Ásgeir og minnir að hann sé og hafi verið talsmaður þess að lengja í dagskrá Olísdeildar og leika lengra inn í sumarið en gert er ráð fyrir.
Vill leika lengra inn í sumarið
„Ég hef nú sagt áður og þreytist seint á að endurtaka það að ég tel að skynsamlegasta leiðin í dag sé að spila lengur inní sumarið, út júní, jafnvel inní júlí. Þar með getum við spilað mótið skynsamlega og vonandi hnökralaust. Þetta hef ég sagt frá upphafi og hef ekki skipt um skoðun.
En þangað til að við FH-ingar heyrum eitthvað frekar þá mætum við til leiks á móti Fram 17. mars og vonandi lætur Sebastian sjá sig með sína menn,“ segir Ásgeir Jónsson, formaður Handknattleiksdeildar FH.