„Þetta var agaður og góður leikur hjá okkur,“ sagði Magnús Stefánsson þjálfari ÍBV þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans í dag eftir að ÍBV vann HB Red Boys Differdange, 34:30, í fyrri viðureign liðanna í 32-liða úrslitum Evrópubikarkeppni karla í handknattleik. Leikurinn fór fram í Lúxemborg og verður síðari leikurinn á sama stað á morgun. Samanlögð úrslit leikjanna tveggja ræður því hvort liðið heldur áfram keppni.
ÍBV var þremur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 15:12.
„Ég er hóflega bjartsýnn fyrir síðari leikinn á morgun. dómararnir halda sömu línu á morgun og þeir voru með í dag þá getum við alveg unnið aftur,“ sagði Magnús og bætti við að „talsverð læti“ hafi verið í leikmönnum HB Red Boys Differdange og þeir fyrir vikið verið talsvert oft utan vallar.
Magnús sagði Portúgalann, Daniel Vieira, haf ileikið sinn besta leik til þessa. Hann hafi skorað sjö mörk, átt fjórar stoðsendingar og unnið tvö vítaköst. Einnig hafi markverðirnir Petar Jokanovic og Pavel Misckevic verið öflugir. Sá fyrrnefndi er nýlega stiginn upp úr lungnabólgu.
Elmar Erlingsson lék einnig vel og náði vel saman með Kára Kristjáni Kristjánssyni á línunni. Gauti Gunnarsson hafi einnig staðið sig afar vel.
Mörk ÍBV: Daniel Vieira 7, Kári Kristján Kristjánsson 7, Breki Þór Óðinsson 4, Gauti Gunnarsson 4, Elmar Erlingsson 4, Sigtryggur Daði Rúnarsson 3, Arnór Viðarsson 2, Danjál Ragnarsson 1, Gabríel Martinez Róbertsson 1, Sveinn Jose Rivera 1.