„Við höfum úr mörgum handknattleiksmönnum að velja um þessar mundir en þetta er niðurstaðan og ég mjög ánægður með hana. Eini maðurinn sem stóð okkur ekki til boða að þessu sinni er Gísli Þorgeir Kristjánsson. Hann er frá vegna meiðsla en á góðum batavegi,“ sagði Snorri Stenn Guðjónsson landsliðsþjálfari karla í handknattleik í samtali við handbolta.is í dag eftir hann hafði opinberaði sinn fyrsta landsliðshóp.
Alls er 21 leikmaður í hópnum, þar af þrír marverðir. Æfingar hefjast 30. október og síðan verða leiknir tveir vináttulandsleikir við Færeyinga í Laugardalshöll föstudaginn 3. nóvember og laugardaginn 4. nóvember áður en leikmenn halda á ný til sinna félagsliða.
Valdi fleiri en færri
Snorri Steinn segist hafa kosið að velja fleiri en færri í fyrsta landsliðshóp sinn sem kemur saman til æfinga undir lok mánaðarins.
„Ég valdi tuttugu og einn leikmann. Eðlilegra hefði kannski verið að velja átján eða nítján. En þegar við [Arnór Atlason aðstoðarmaður – innsk.blm] vorum að velta málum fyrir okkur þá voru tveir til þrír leikmenn sem við vorum í óvissu með. Niðurstaðan varð sú að velja þá. Það er bara gott að sjá menn vinna í hóp í verkefni eins og þessu í stað þess að sjá menn í leik með félagsliðum sínum,“ sagði Snorri Steinn í samtali við handbolta.is í dag eftir að hann hafði opinberað fyrsta landsliðshóp sinn sem landsliðsþjálfari.
Einn nýliði í fyrsta landsliðshópi Snorra Steins
Hlutverk manna verður misjafnt
„Ég er einnig að leita eftir mönnum í ákveðin hlutverk. Það er alveg ljóst að hver einasti maður kemur ekki til með að leika í sextíu mínútur. Hlutverk manna er mismunandi og misstór. Það er að ýmsu að hyggja þegar settur er saman landsliðshópur,“ sagði Snorri Steinn.
Gísli Þorgeir á góðum batavegi
Spurður hvort að hann væri nú þegar búinn að þrengja leitina að keppnishópnum fyrir EM með þessu vali, sagði Snorri Steinn svo ekki vera. Gísli Þorgeir væri til dæmis á góðum batavegi og verði örugglega fær um að leika með landsliðinu í janúar gangi honum jafnvel á bataveginum á næstu vikum og á undangengnum vikum og mánuðum. „Gísli Þorgeir getur hugsanlega náð leikjum með Magdeburg í desember og ætti að standa okkur til boða í janúar ef ekkert kemur óvænt upp hjá honum,“ sagði Snorri á blaðamannafundi þegar hann kynnti landsliðshópinn.
Fleiri leikmenn í sigtinu
„Einnig eru leikmenn fyrir utan hópinn í dag sem ég fylgist með. Má þar meðal annars nefna Teitur Örn Einarsson, Orra Frey Þorkelsson, Hákon Daða Styrmisson og Svein Jóhannsson. Allt leikmenn sem hafa leikið mjög vel upp á síðkastið,“ sagði Snorri Steinn og bætti.
„Eðli málsins samkvæmt þá eru þeir sem valdi núna kannski nær markinu en aðrir. Þetta er síðasti hópur sem ég vel til æfinga áður en kemur að vali EM-hópnum í desember,“ sagði Snorri Steinn sem reiknar með að fyrsta æfing landsliðsins fyrir EM verði á öðrum degi jóla, 26. desember. Nýta verði tímann vel því æfingadagar verða ekki margir áður haldið verður á EM hvar fyrsti leikur íslenska landsliðsins verður 12. janúar.
Enginn útilokaður
„Hinsvegar getur ýmislegt gerst á næstu vikum eða næstu rúmum tveimur mánuðum áður en undirbúningur fyrir EM hefst. Menn geta leikið enn betur en þeir eru að gera núna eða þá verr. Auk þess er því miður aldrei hægt að útiloka meiðsli. Ég held að sjálfsögðu öllu opnu,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari karla í handknattleik í samtali við handbolta.is dag.