Handknattleikssamband Evrópu, EHF, hefur tekið þá ákvörðun að draga ísraelsk félagslið sem taka þátt í Evrópubikarkeppni karla úr keppni. Vegna ástandsins í Ísrael er útilokað að félagsliðin Maccabi Rishon Lezion, Holon Yuvalim HC og Hapoel Ashdod HC geti leikið við andstæðinga sína í annarri umferð í keppninni.
Leikjum liðanna sem fram áttu að fara um síðustu helgi var frestað. Ljóst er að síðan hefur ástandið síst lagast. Af því leiðir að leikir liðanna geta ekki farið fram, hvorki heima né að heiman um næstu helgi þegar síðari leikir 2. umferðar fara fram.
RK Sloboda frá Bosníu, finnska liðið BK-46 og CSA Steaua frá Búkarest eru þar með komin í 3. umferð Evrópubikarkeppninnar án þess að leika.
EHF harmar að hafa þurft að grípa inn í með þessum hætti. Markmiðið eigi að vera að úrslit ráðist á leikvellinum. Hjá því varð ekki komist að taka í taumana að þessu sinni enda ekki með nokkru móti hægt að tryggja öryggi þeirra sem taka eiga þátt í leikjunum.
Einnig kemur fram í tilkynningu EHF að sambandið fordæmi ofbeldi og stendur með þeim sem þetta hræðilega ástand bitnar á.
Tengt efni:
Evrópuleikjum ísraelskra félagsliða slegið á frest
EHF frestar landsleikjum Ísraels