Kristín Guðmundsdóttir var hetjan í dag þegar hún bjargaði HK-liðinu fyrir horn með ævintýralegu sigurmarki á síðustu sekúndu leiks HK og FH í Kaplakrika, 24:23. Kristín skorað með langskoti af 15 metra færi og þar sem boltinn söng sigursöng í netmöskvum FH-marksins í þann mund sem leiktíminni var úti.
Óhætt er að segja að heppnin hafi verið með HK-liðinu í þessum leik því liðið lék ekki vel og var lengi vel undir í viðureigninni við FH-liðið sem situr enn án stiga í neðsta sæti deildarinnar þegar 11 leikjum er lokið. HK komst upp að hlið Hauka með níu stig í sjötta til sjöunda sæti.
FH-liðið var með eins til fjögurra marka forskot allan fyrri hálfleikinn. Þegar fyrri hálfleikur var úti var þriggja marka munur, 15:12.
Áfram var FH með yfirhöndina, allt að fjórum mörkum framan af síðari hálfleik. HK-liðið virtist ekki eiga sér viðreisnar von.
Fyrrnefnd Kristín jafnaði metin loks fyrir HK, 20:20, þegar sjö mínútur voru til leiksloka. Eftir það var jafnt á flestum tölum þar til sigurmarkið var gert á síðustu andartökum leiksins.
Mörk FH: Emilía Ósk Steinarsdóttir 8, Hildur Guðjónsdóttir 7, Freydís Jara Þórsdóttir 3, Ragnheiður Tómasdóttir 2, Aþena Arna Valdimarsdóttir 1.
Varin skot: Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir 9, 42,9% – Írena Björk Ómarsdóttir 2, 14,3%.
Mörk HK: Sigríður Hauksdóttir 7, Kristín Guðmundsdóttir 6, Jóhanna Margrét Sigurðardóttir 4, Tinna Sól Björgvinsdóttir 3, Elna Ólöf Guðjónsdóttir 3, Berglind Þorsteinsdóttir 1.
Varin skot: Alexandra Von A. Gunnarsdóttir 10, 47,6% – Selma Þóra Jóhannsdóttir 2, 15,4%.
Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz.