Haukar lögðu Aftureldingu, 27:23, á Ásvöllum í kvöld og höfðu um leið sætaskipti við lið Mosfellinga í Olísdeild karla. Hafnarfjarðarliðið færðist upp í þriðja sæti með 10 stig meðan Aftureldingarmenn sitja eftir með sárt ennið og níu stig í fjórða sæti þegar liðin hafa leikið sjö sinnum hvort. Þetta var fjórði sigur Hauka í röð í deildinni sem heldur betur hafa sótt í sig veðrið.
Staðan var 14:11 þegar fyrri hálfleikur var að baki, Haukum í hag.
Mosfellingar töpuðu í fyrsta sinn síðan í fyrstu umferð en þeir höfðu unnið fjóra af síðustu fimm leikjum sínum og gert eitt jafntefli þegar þeir mættu til leiks á Ásvöllum í kvöld.
Fyrstu 25 mínútur leiksins voru jafnar en jafnframt ekkert sérstaklega vel leiknar. Haukar nýttu sér veikleika hjá Aftureldingu í sóknarleiknum til þess að snúa vörn hratt í sókn, skora þrjú mörk í röð og komast þremur mörkum yfir, 12:9. Sá munur hélst til loka hálfleiksins
Aron Rafn Eðvarðsson varði vel í marki Hauka, alls 11 í fyrri hálfleik, 50%. Eins var Guðmundur Bragi Ástþórsson mjög góður og bar uppi sóknarleik Hauka.
Mosfellingar byrjuðu af krafti í síðari hálfleik og jöfnuðu metin með þremur mörkum áður en Haukum tókst að svara fyrir sig. Leikurinn var í járnum þangað til innan við tíu mínútur voru eftir. Eins og undir lok fyrri hálfleiks þá tókst Haukum á ný að skora þrjú mörk í röð og komst þremur mörkum yfir þegar halla tók á leiktímann í síðari hálfleik, 24:21. Segja má að Mosfellingar hafi ekki haft burði til þess að jafna leikinn á ný.
Sóknarleikur Aftureldingar var borinn uppi af Blæ Hinrikssyni, Þorsteini Leó Gunnarssyni og Ihor Kopyshynskyi. Aðrir voru fjarri sínu besta, jafnvel víðsfjarri. Jovan Kukobat varði afar vel í síðari hálfleik og kom í veg fyrir að tapið yrði stærra.
Aron Rafn hélt áfram að verja afar vel í marki Hauka í síðari hálfleik en sannarlega voru nokkur markskot Mosfellinga slök.
Guðmundur Bragi gerði margar vitleysur í síðari hálfleik en það kom ekki að sök þegar aðrir tóku við og léku vel, t.d. Adam Haukur Baumruk, Geir Guðmundsson og Þráinn Orri Jónsson sem lét mjög til sína taka á báðum vallarhelmingum.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.
Mörk Hauka: Guðmundur Bragi Ástþórsson 8/2, Adam Haukur Baumruk 5, Geir Guðmundsson 4, Þráinn Orri Jónsson 4, Össur Haraldsson 2, Guðmundur Hólmar Helgason 2, Aron Rafn Eðvarðsson 1, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 1.
Varin skot: Aron Rafn Eðvarðsson 19, 45,2%.
Mörk Aftureldingar: Þorsteinn Leó Gunnarsson 6, Ihor Kopyshynskyi 5, Blær Hinriksson 5, Leó Snær Pétursson 3/3, Birkir Benediktsson 2, Stefán Magni Hjartarson 1, Árni Bragi Eyjólfsson 1.
Varin skot: Jovan Kukobat 11/1, 28,9%.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.