Alfreð Gíslason landsliðsþjálfari Þýskalandi í handknattleik karla hefur valið 19 leikmenn til æfinga og síðan til þátttöku í tveimur vináttuleikjum Þýskalands og Egyptalands í Neu-Ulm og München 3. og 5. nóvember. Leikirnir eru afar mikilvægur hluti í undirbúningi þýska landsliðsins fyrir Evrópumeistaramótið sem hefst í Þýskalandi 10. janúar fyrir framan 50 þúsund áhorfendur í Düsseldorf með viðureign Þýskalands og Sviss.
Tveir nýliðar eru í hópnum, David Späth, markvörður Rhein- Neckar Löwen og hornamaðurinn Tim Nothdurft liðsmaður Bergischer. Báðir voru þeir í U21 árs landsliði Þýskalands sem varð heimsmeistari í sumar. Späth var besti markvörður keppninnar og það svo sannarlega með réttu.
Wolff ennþá í endurhæfingu
Späth mun standa vaktina í leikjunum við Egypta ásamt reynslumanninum Silvio Heinevetter. Ekki er reiknað með að Andreas Wolff markvörður verði klár í slaginn. Hann er sagður vera á góðum batavegi eftir að hafa meiðst í lok ágúst. Wolff mætir til æfinganna með þýska liðinu sem hefjast sunnudaginn 30. október. Haft er eftir Alfreð í þýskum fjölmiðlum að Wolff haldi sínu striki við endurhæfinguna með félögum sínum í þýska landsliðinu þá viku sem hópurinn verður saman.
Paul Drux, Fabian Wied, Luca Witzke er frá keppni vegna meiðsla. Auk þess er ljóst að Hendrik Pekeler gefur ekki kost á sér, hvorki í leikina við Egypta né á EM.
Þýski landsliðshópurinn
Markverðir:
Silvio Heinevetter (TVB Stuttgart).
David Späth (Rhein-Neckar Löwen).
Andreas Wolff (Industria Kielce).
Vinstra horn:
Rune Dahmke (THW Kiel).
Lukas Mertens (SC Magdeburg).
Tim Nothdurft (Bergischer HC).
Vinstri skyttur:
Sebastian Heymann (Frisch Auf Göppingen).
Philipp Weber (SC Magdeburg).
Julian Köster (VfL Gummersbach).
Miðjumenn:
Juri Knorr (Rhein-Neckar Löwen).
Marian Michalczik (TSV Hannover-Burgdorf).
Hægri skyttur:
Kai Häfner (TVB Stuttgart)
Renars Uscins (TSV Hannover-Burgdorf).
Christoph Steinert (HC Erlangen).
Hægra horn:
Patrick Groetzki (Rhein-Neckar Löwen).
Timo Kastening (MT Melsungen).
Línumenn:
Justus Fischer (TSV Hannover-Burgdorf).
Johannes Golla (SG Flensburg-Handewitt).
Jannik Kohlbacher (Rhein-Neckar Löwen).