Fyrstu landsleikir karlalandsliðsins í handknattleik undir stjórn Snorra Steins Guðjónssonar verða sendir út í sjónvarpi Símans. Viðureignirnar verða við Færeyinga og fara fram í Laugardalshöll 3. og 4. nóvember.
Eftir því sem handbolti.is kemst næst afþakkaði RÚV að sýna leikina vegna þess að ekki er um mótsleiki að ræða, heldur vináttuleiki. Engu skipti þótt um væri að ræða fyrstu landsleiki undir stjórn nýs landsliðsþjálfara.
Þetta verður í fyrsta sinn sem Síminn sendir út leiki íslenska karlalandsliðsins í handknattleik.
HSÍ brást við með því að semja við framleiðslufyrirtækið Kukl um framleiðslu á leikjunum, þ.e. upptöku og öðru tengdu, og við Símann um að senda leikina beint út til landsmanna í gegnum dreifikerfi sitt. Verður allt lagt í sölurnar til þess að upptaka og útsending verði eins góð og best verður á kosið og valinn maður verður í hverju rúmi á bak við tjöldin.
Fyrri viðureignin fer fram föstudaginn 3. nóvember og hefst klukkan 19.30 og sú síðari daginn eftir. Flautað verður til leiks klukkan 17.30. Miðasala til áhorfenda hefst á morgun á Tix.is.
Færeyingar, eins og Íslendingar, taka þátt í Evrópumótinu í Þýskalandi í janúar. Þeir mæta hingað með alla sína vöskustu leikmenn. Gríðarlegar framfarir hafa átt sér stað í færeyskum handknattleik á síðustu árum.
Útsending leikjanna verður í opinni dagskrá.
Einu heimaleikirnir fyrir EM
Eins og áður segir þá verða þetta fyrstu leikir íslenska landsliðsins undir stjórn Snorra Steins Guðjónssonar. Um leið verða þetta einu leikir íslenska karlalandsliðsins hér á landi áður en Evrópumótið hefst í janúar. Leiknir verða tveir vináttuleikir við Austurríki ytra skömmu áður en EM hefst. Hvort leikirnir við Austurríki verða sendir út hjá Símanum, RÚV eða öðrum skýrist þegar nær dregur.
Uppfært: Stálminningur lesandi benti handbolta.is á að þetta yrðu ekki fyrstu leikir karlalandsliðsins í handbolta sem Síminn sendir út eins og fullyrt er framarlega í þessari frétt. Hið rétta er að Síminn sendi út þrjá leiki frá upphitunarmóti karlalandsliðsins fyrir EM 2014. Þeir leikir fóru fram ytra.