Handknattleiksmaðurinn Teitur Örn Einarsson er frá keppni um þessar mundir eftir að hann fékk þungt högg á annað augað í viðureign Flensburg og Kadetten Schaffhausen í Evrópudeildinni í handknattleik á þriðjudagskvöldið. Óvíst er hversu lengi Selfyssingurinn verður frá keppni.
Teitur Örn var þar af leiðandi ekki með Flensburg í sigri liðsins á HC Erlangen í Nürnberg í gær, 27:22. Leikurinn var liður í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Ekki fer hann heldur með Flensborgarliðinu til Svartfjallalands þar sem fyrir dyrum stendur leikur við HC Lovcen-Cetinje í annarri umferð Evrópudeildarinnar á þriðjudaginn.
Hafði nýtt langþráð tækifæri
Teitur Örn hafði farið á kostum í leiknum við Kadetten á þriðjudaginn og skoraði sjö mörk í níu skotum þegar hann var sleginn. Zoran Markovic, leikmaður svissneska meistaraliðsins, fékk umsvifalaust rautt spjald. Um fjórar mínútur voru þá eftir af leiknum. Flensburg vann stórsigur, 46:32.
Teitur Örn skoraði einnig sjö mörk fyrir Flensburg í sigurleik á Balingen fyrir viku í þýsku 1. deildinni. Virtist hann loks vera að fá tækifæri með Flensburg-liðinu þegar óhappið varð í viðureigninni á síðasta þriðjudag.
Sigur hjá Arnóri Þór
Bergischer HC vann Göppingen á heimavelli í hinni viðureign þýsku 1. deildarinnar í gær, 33:30. Arnór Þór Gunnarsson er aðstoðarþjálfari Bergischer HC eftir að hann lagði skóna á hilluna í vor. Bergischer HC hefur sótt í sig veðrið í síðustu leikjum og er nú komið upp í 10. sæti af 18 liðum.
Stöðuna í þýsku 1. deildinni og fleiri deildum Evrópu er að finna hér.