Viðureign Selfoss og Fram í 16-liða úrslitum Poweradebikarsins í handknattleik kvenna hefur verið frestað til miðvikudags að beiðni Fram. Þetta kemur fram í tilkynningu mótanefndar HSÍ fyrir stundu. Flautað verður til leiks klukkan 19.30 á miðvikudagskvöld í Sethöllinni á Selfossi.
Til stóð að leikur Selfoss og Fram í Sethöllinni yrði ein fjögurra sem fram færu fram annað kvöld. Vegna kvennaverkfallsins kom fram beiðni frá Fram sem orðið hefur verið við.
Af þessari ástæðu hefur leik Fram og HK í Olísdeild karla sem átti að fara fram á miðvikudaginn verið færður fram á fimmtudagskvöld. Er það gert vegna þeirra vinnureglu HSÍ að leikir meistaraflokka sama félags fari helst ekki fram sama kvöldið sitt á hvorum leikstað.
Aðrir leikir fara fram
„Það hefur ekki borist ósk eða beiðni um að fresta öðrum leikjum sem fram eiga að fara í Poweradebikarkeppni kvenna á þriðjudag,“ sagði Róbert Geir Gíslason framkvæmdastjóri HSÍ í samtali við handbolta.is fyrir stundu.
Leikirnir þrír sem fram fara á þriðjudagskvöld í Poweradebikar kvenna:
HK – FH, kl. 19.30 í Kórnum.
Stjarnan – Afturelding, kl. 19.30 í Mýrinni.
Fjölnir – Gróttakl. 20 í Fjölnishöll.