Betur fór en óttast var hjá handknattleiksmanninum Darra Aronssyni hjá Haukum sem meiddist í viðureign við KA í KA-heimilinu 25. febrúar. Nú hefur verið útilokað að krossband í vinstra hné hafi slitnað eins og ótti var uppi um. Darri fór í ítarlega læknisskoðun í síðustu viku þar sem krossbandaslit var slegið út af borðinu. „Það var mikill léttir fyrir alla,“ sagði Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka og faðir Darra í samtali við handbolta.is í dag.
Að sögn Arons er talið að um að skemmd geti verið í liðþófa eða í brjóski. Darri er í endurhæfingu hjá Elís Þór Rafnssyni sjúkraþjálfara Hauka og íslenska karlalandsliðsins. „Næstu tvær til þrjár vikur munu skera betur úr með framhaldið. Eftir því sem bólgurnar minnka í hnénu þá kemur betur í ljós hversu hratt endurhæfing mun ganga. Vonandi verður allt í lagi þegar frá líður,“ sagði Aron ennfremur.
Ekkert verður leikið Olísdeildinni þessa vikuna vegna alþjóðlegrar landsleikjaviku. Á meðan fá leikmenn Hauka tækifæri til að kasta aðeins mæðinni frá kappleikjum. „Við lyftum og tökum góða æfingaviku eftir átökin upp á síðkastið og búum okkur undir næstu törn,“ sagði Aron.
Næsti leikur Hauka í Olísdeildinni verður á móti Stjörnunni í Schenkerhöllinni á Ásvöllum á þriðjudaginn eftir rúma viku.