Dagur Sigurðsson stýrði japanska landsliðinu í dag til sigurs í undankeppni Ólympíuleikanna í handknattleik, Asíuhlutanum. Japan vann Barein, sem Aron Kristjánsson þjálfar, í úrslitaleik í Doha í Katar, 32:29. Japanska landsliðið tryggði sér þar með farseðilinn á Ólympíuleikana sem fram fara í París á næsta ári.
Barein tekur þátt í forkeppni leikanna sem fram fer í Evrópu í mars á næsta ári en það er sama forkeppnin og íslenska karlalandsliðið horfir til ef það nær viðunandi árangri á EM í Þýskalandi í janúar. Í forkeppninni verður leikið í þremur fjögurra liða riðlum og komast tvö lið úr hverjum riðli áfram á leikana.
Vann alla sína leiki
Japanska landsliðið var vel að sigrinum komið á mótinu. Það vann alla sína andstæðinga nokkuð sannfærandi. Staðan í hálfleik í úrslitaleiknum í dag var 18:13. Bareinum óx ásmegin í síðari hálfleik en ekki nóg til þess að vinna.
Suður Kórea lagði landslið Katar í leiknum um þriðja sætið, 38:32.
Þetta verða aðrir Ólympíuleikarnir í röð sem japanska landsliðið tekur þátt en leikarnir 2021 fór fram í Tókýó.
Dagur hefur þjálfað japanska landsliðið í sex ár.
Þess má að lokum geta að Aron Kristjánsson stýrði Barein til sigurs í forkeppni Asíu fyrir Óluympíuleikanna 2020 sem fóru reyndar ekki fram fyrr en árið eftir af vel þekktum ástæðum.