Danska handknattleikssambandið hefur horfið frá þeim áformum sínum að ekki verði krýndir bikarmeistarar í handknattleik karla þetta árið. Til stóð að leika til úrslita í vor en því síðan slegið á frest þegar kórónaveiran lék mjög lausum hala og þá fram í septemberlok.
Þegar leið undir lok ágúst var tilkynnt að hætt væri við undanúrslita- og úrslitahelgina í lok september og ekkert lið yrði krýnt bikarmeistari fyrir árið 2020 í karlaflokki. Kvennakeppninni tókst að ljúka áður allt sauð upp úr vegna kórónuveirunnar enda er bikarkeppninni í kvennaflokki ævinlega lokið í desember ár hvert.
Nú hafa forráðamenn danska handknattleikssambandsins vent kvæði sínu í kross og ákveðið að leika skuli til úrslita í bikarkeppninni. Ekkert verður úr úrslitahelginni en í stað þess fara undanúrslitaleikirnir fram með „gamla laginu“, þ.e. að Skanderborg og Team Tvis Holstebro annarsvegar og GOG og Bjerringbro/Silkeborg hinsvegar mætast á heimavelli Skanderborg og GOG 26. og 27. september.
Að loknum undanúrslitum verður dregið á milli liðanna tveggja á hvorum heimavellinum úrslitaleikurinn fari fram.
Óðinn Þór Ríkharðsson leikur með Team Tvis Holstebro og Viktor Gísli Hallgrímsson stendur vaktina í marki GOG.