Íslenska landsliðið í handknattleik karla vann nauman sigur á færeyska landsliðinu í síðari vináttuleik þeirra í handknattleik karla í Laugardalshöll í kvöld, 30:29, eftir að hafa verið fjórum mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik. Eftir 15 marka sigur í gær þá tókst Færeyingum að halda mikið betur á spilunum í kvöld og mega teljast óheppnir að hafa ekki krækt í jafntefli.
Færeyska liðið var tveimur mörkum yfir, 23:21, þegar síðari hálfleikur var hálfnaður, 23:21. Íslenska liðinu lánaðist að skora þrjú mörk í röð og komast yfir. Eftir það var stál í stál til leiksloka að Viggó Kristjánsson kom Íslandi tveimur mörkum yfir, 30:28, þegar innan við mínúta var til leiksloka. Viktor Gísli Hallgrímsson sýndi snilli sína í markinu á allra síðustu mínútum og barg sigrinum með nokkrum dýrmætum vörslum.
Færeyingar stjórnuðu hraðanum í leiknum í dag, ólíkt því sem gerðist í gær. Þeir léku langar sóknir og tókst að hanga á boltanum lon og don. Þar lék hinn snjalli Elias Ellefsen á Skipagøtu aðalhlutverkið. Hann stjórnaði leiknum og reyndist íslenska liðinu afar erfiður. Fyrir vikið töpuðu Færeyingar ekki nándar eins oft boltanum og í fyrri leiknum sem kom í veg fyrir að hægt væri að halda uppi sama hraða og áður.
Mega leikmenn íslenska liðsins teljast góðir að hafa sloppið fyrir horn eftir snúinn leik við frændur okkar sem geta orðið andstæðingum sínum skeinuhættir á EM takist þeim jafn vel upp og í Laugardalshöll í kvöld.
Mörk Íslands: Ómar Ingi Magnússon 6/4, Viggó Kristjánsson 4/1, Elliði Snær Viðarsson 4, Aron Pálmarsson 4, Haukur Þrastarson 3, Bjarki Már Elísson 3, Janus Daði Smárason 2, Sigvaldi Björn Guðjónsson 2, Arnar Freyr Arnarsson 1, Elvar Örn Jónsson 1.
Varin skot: Viktor Gísli Hallgrímsson 10, 40% – Björgvin Páll Gústavsson 2/1, 12,5%.
Mörk Færeyja: Hákun West af Teigum 9, Elias Ellefsen á Skipagøtu 6/2, Vilhelm Poulsen 5, Roi Berg Hansen 2, Leivur Mortensen 2, Teis Horn Rasmussen 2, Bjarni Í Selvindi 2, Óli Mittún 1.
Varin skot: Nicholas Satchwell 9, 28,1%.
Handbolti.is var í Laugardalshöll og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.