„Mér líst vel á það sem Snorri er að gera. Vissulega voru þetta vináttuleikur og engin ástæðan til þess að fara á flug en það er jákvæð teikn á lofti eftir leikina tvo,“ sagði Patrekur Jóhannesson handknattleiksþjálfari og fyrrverandi landsliðsmaður í handknattleik spurður um hvernig honum líst á íslenska karlaladsliðið um þessar mundir og leikina tvo sem fram fóru í gær og á föstudaginn við Færeyjar í Laugardalshöll. Leikirnir voru þeir fyrstu eftir að Snorri Steinn Guðjónsson tók við starfi landsliðsþjálfara fyrr á árinu.
Treystir öllum í hópnum
„Maður sér strax handbragð Snorra á liðinu. Hraðinn er meiri, ekki síst í fyrri leiknum. Snorri dreifði álaginu mjög mikið á milli leikmanna sem er. Hann treystir öllum hópnum sem er mikilvægt. Mér finnst þetta líta betur en vissulega verður að taka tillit til þess að um var að ræða vináttuleiki. Þeir eru alltaf öðruvísi en stórmótaleikir þegar komið er út í alvöruna,“ sagði Patrekur og bætti við:
„Margir fengu alvörumínútur í leikjunum, ekki bara ruslmínútur í lokin. Það er mikilvægt, bæði fyrir leikmenn og þjálfarann að sjá hvernig menn bregðast við. Það kúnst að stýra álaginu þannig að það dreifist vel á milli leikmanna því það reynir mjög á menn að leika marga leiki dag eftir dag á stórmótum. Stundum höfum við keyrt á sama mannskapnum frá upphafi til enda með þeim afleiðingum að menn eru orðnir mjög þreyttir í lokin.
Vissulega voru leikirnir við Færeyinga vináttuleikir og þess vegna mögulegt að leyfa sér að prófa eitt og annað. En þetta er mjög jákvætt og ég reikna með að Snorri haldi áfram að dreifa álaginu og ábyrgðinni á milli manna,“ sagði Patrekur.
Gaman að sjá Hauk
Patrekur segir gaman að sjá Hauk Þrastarson á ný með landsliðinu. Hann lék af miklu sjálfstrausti að mati Patreks. Einar Þorsteinn Ólafsson fékk einnig gott tækifæri í fyrri leiknum. Hann er leikmaður sem lofar góðu.
Gísli og fleiri
„Til viðbótar eigum við Gísla Þorgeir [Kristjánsson] sem er sem verður vonandi klár í slaginn í janúar. Gísli Þorgeir hefur sýnt að hann er einn besti miðjumaður í heimi. Fleiri leikmenn eigum við sem voru ekki með að þessu sinni. Ég get til dæmis nefnt Teit Örn Einarsson sem leikið hefur mjög vel í Þýskalandi.“
Jákvætt að breiddin er mikil
„Það er gott fyrir handboltann að breiddin sé mikil og samkeppnin um sæti í landsliðinu eftir því. Það sýnir að vel hefur verið unnið í yngri landsliðunum á síðustu árum og einnig hjá félögunum þar sem landsliðsmennirnir verða til. Það er bara jákvætt hafa góða breidd og samkeppni um sæti í landsliðinu,“ sagði Patrekur Jóhannesson, handknattleiksþjálfari í samtali við handbolta.is í Laugardalshöll í gærkvöld.