Bikarmeistarar ÍBV fengu slæma útreið í fyrri viðureigninni við portúgalska liðið Madeira Andebol SAD á portúgölsku eyjunni Madeira í kvöld, 33:19. Leikurinn var sá fyrri á milli liðanna í 32-liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar í handknattleik kvenna. Þetta er annað árið í röð sem liðin mætast á þessum stað í Evrópubikarkeppninni.
Síðari viðureignin fer fram á sama stað á morgun. Útlit er fyrir að róðurinn verður þungur hjá ÍBV-liðinu.
Lengst af fyrri hálfleiks hélt ÍBV í við leikmenn Madeira og aðeins var þriggja marka munur að loknum fyrri hálfleik, 15:12, en sjö mínútum fyrir lok hálfleiksins var Madeira aðeins marki yfir.
Upphafskaflinn í síðari hálfleik reyndist ÍBV-liðinu erfiður. Madeiraliðið skoraði sjö fyrstu mörkin á 10 fyrstu mínútunum. Eftir það voru úrslitin ráðin.
Á síðsta ári þegar liðin mættust í 32-liða úrslitum keppninnar tapaði ÍBV samanlagt með fimm marka mun í tveimur leikjum. Madeira Andebol SAD féll úr keppni í átta liða úrslitum á síðasta tímabil með minnsta mun fyrir spænsku félagsliði, Club Balonmán Atlético Guardes.
Eins og áður hefur komið fram vantar þrjá afar öfluga leikmenn hjá ÍBV, Birnu Berg Haraldsdóttur, Hrafnhildi Hönnu Þrastardóttur og Britney Cots. Skarð er þar af leiðandi fyrir skildi. Allar eru þær frá vegna meiðsla.
Mörk ÍBV: Sara Dröfn Ríkharðsdóttir 4, Sunna Jónsdóttir 4, Amelía Dís Einarsdóttir 3, Karolina Olszowa 2, Ásdís Guðmundsdóttir 2, Birna María Unnarsdóttir 1, Elísa Elíasdóttir 1, Margrét Björg Castillo 1, Erika Ýr Ómarsdóttir 1.
Varin skot: Marta Wawszynkowska 11, 25%.