Afturelding varð þriðja liðið til þess að öðlast sæti í átta liða úrslitum Poweradebikarkeppni karla í handknattleik í kvöld. Bikarmeistararnir máttu sannarlega hafa fyrir sigri á HK að Varmá í kvöld, 31:29, eftir að hafa verið marki yfir að loknum fyrri hálfleik, 17:16. HK skoraði þrjú síðustu mörk leiksins.
Segja má að fjögur vítaköst hafi orðið HK-ingum að falli í leiknum. Brynjar Vignir Sigurjónsson markvörður Aftureldingar fór mikinn í síðari hálfleik. Hann varði þrjú vítaköst og einu sinni kastaði leikmaður HK yfir mark Aftureldingar. Svona nokkuð er rándýrt í jöfnum bikarleik.
HK hélt Aftureldingu hressilega við efnið í 45 mínútur að Varmá í kvöld og sýndi á sér allt aðra og betri hlið en í heimsókn í Mosfellsbæ í haust. Þegar kom fram í síðari helming síðari hálfleiks þá náði Afturelding góðu forskoti sem HK tókst ekki að vinna upp þrátt fyrir heiðarlega tilraun á allra síðustu mínútum.
Framfarir
Tveir síðustu leikir HK-inga, í deild og bikar, hafa bent til skýrra framfara. Menn lögðu sig alla fram í leikinn í kvöld og geta vafalaust byggt ofan á það sem vel var gert. Sigurjón Guðmundsson markvörður átti afar góðan leik. Eins var gaman að sjá unglingalandsliðsmanninn Hauk Inga Hauksson gera usla í vörn Aftureldingar í síðari hálfleik. Hann hjó nokkrum sinnum á hnútinn þegar vörn Aftureldingar virtist vera óvinnandi vígi.
Í gær komust Stjarnan og Selfoss í átta liða úrslit Poweradebikarsins. Í kvöld og á morgun verða fleiri leiki í 16-liða úrslitum. Á morgun: ÍBV 2 - Valur, kl. 17.30. ÍR - FH, kl. 18. Fjölnir - KA, kl. 18. Á laugardag: ÍBV - Fram, kl. 16. ÍH - Haukar, kl. 16.
Mörk Aftureldingar: Árni Bragi Eyjólfsson 8, Ihor Kopyshynskyi 6, Þorsteinn Leó Gunnarsson 5, Birkir Benediktsson 4, Blær Hinriksson 3, Bergvin Þór Gíslason 2, Böðvar Páll Ásgeirsson 1, Jakob Aronsson 1, Þorvaldur Tryggvason 1.
Varin skot: Brynjar Vignir Sigurjónsson 18/3.
Mörk HK: Sigurður Jefferson Guarino 7, Hjörtur Ingi Halldórsson 5, Elías Björgvin Sigurðsson 4, Hafsteinn Óli Berg Ramos Rocha 3, Aron Gauti Óskarsson 2, Haukur Ingi Hauksson 2, Kristján Ottó Hjálmsson 2, Jón Karl Einarsson 2, Arnór Róbertsson 1, Kári Tómas Hauksson 1.
Varin skot: Sigurjón Guðmundsson 17, Róbert Örn Karlsson 1.