Grótta heldur áfram pressu á topplið Selfoss í Grill 66-deild kvenna í handknattleik með því að vinna sínar viðureignir. Grótta lagði ungmennalið Fram, 35:28, í Úlfarsárdal í kvöld í áttundu umferð deildarinnar. Á sama tíma vann Víkingur ungmennalið Vals, 23:21, í Safamýri og færðist upp í þriðja sæti með 11 stig, þremur stigum á eftir Gróttu. Selfoss er efst með 14 stig og á leik til góða við Berserki á sunnudaginn í Víkinni.
Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik í Úlfarsárdal í kvöld. Leikmenn Gróttu fóru með eins marks forskot í hálfleiksræðuna hjá Sigurjóni Friðbirni Björnssyni. Ræðan hreif því allt annað var að sjá til Gróttuliðsins í síðari hálfleik. Liðið skoraði fyrstu sex mörk hálfleiksins og sló lítið af. Þegar 10 mínútur voru til leiksloka var forskotið komið í níu mörk, 30:21, og úrslitin ráðin.
Grótta mætir Víkingi í níundu umferð deildarinnar sem fer ekki fram fyrr en 1. desember.
Sterkari á endasprettinum
Signý Pála Pálsdóttir varði 17 skot í marki Víkings í sigurleiknum á ungmennliði Vals í kvöld, 23:21. Var hún besti maður vallarins að margra mati. Auður Brynja Sölvadóttir var skotviss og skoraði níu mörk fyrir Víkinga í góðum sigri sem heldur liðinu nærri toppnum.
Sigurinn var Víkingum torsóttur en þeim mun sætari. Að loknum fyrri hálfleik var munurinn eitt mark, 13:12, Víkingi í vil. Valur byrjaði síðari hálfleik af krafti og var með yfirhöndina þangað til 10 mínútur voru til leiksloka þegar Víkingur jafnaði metin, 20:20. Eftir það voru Víkingar lítið eitt sterkari og unnu fyrir stigunum tveimur sem voru í boði.
Staðan og næstu leikir í Grill 66-deildum.
Fram U – Grótta 28:35 (15:16).
Mörk Fram U.: Valgerður Arnalds 10, Matthildur Bjarnadóttir 7, Sóldís Rós Ragnarsdóttir 6, Elín Ása Bjarnadóttir 2, Ingibjörg Eva Baldvinsdóttir 1, Íris Anna Gísladóttir 1, Silja Jensdóttir 1.
Varin skot: Ingunn María Brynjarsdóttir 13, Þórdís Idda Ólafsdóttir 1.
Mörk Gróttu: Katrín Anna Ásmundsdóttir 9, Ída Margrét Stefánsdóttir 6, Lilja Hrund Stefánsdóttir 5, Katrín Helga Sigurbergsdóttir 4, Ólöf María Stefánsdóttir 4, Rut Bernódusdóttir 3, Katrín S. Thorsteinsson 1, Guðlaug Embla Hjartardóttir 1, Hrafnhildur Hekla Grímsdóttir 1, Edda Steingrímsdóttir 1.
Varin skot: Soffía Steingrímsdóttir 14, Anna Karólína Ingadóttir 1.
Víkingur – Valur U 23:21 (13:12).
Mörk Víkings: Auður Brynja Sölvadóttir 9, Ída Bjarklind Magnúsdóttir 4, Hafdís Shizuka Iura 3, Mattý Rós Birgisdóttir 2, Áróra Eir Pálsdóttir 2, Díana Ágústsdóttir 2, Sunna Katrín Hreinsdóttir 1.
Varin skot: Signý Pála Pálsdóttir 17.
Mörk Vals U.: Ásthildur Jóna Þórhallsdóttir 6, Guðrún Hekla Traustadóttir 6, Kristbjörg Erlingsdóttir 3, Hrafnhildur Markúsdóttir 2, Vaka Sigríður Ingólfsdóttir 2, Sara Lind Fróðadóttir 1, Laufey Helga Óskarsdóttir 1.
Varin skot: Arna Sif Jónsdóttir 13.
Staðan og næstu leikir í Grill 66-deildum.