Sandra Erlingsdóttir kemur í frábæru formi til móts við íslenska landsliðið í handknattleik á morgun þegar hún kemur til landsins. Hún átti alltént stórleik í kvöld með TuS Metzingen í öruggum sigri liðsins á HSG Bad Wildungen Vipers í Ense-Halle vestur af Dortmund í dag, 37:32, í síðasta leik liðanna á árinu.
Sandra var markahæst á vellinum með átta mörk í níu skotum. Aðeins eitt markanna skoraði Eyjamærin úr vítakasti. Sandra átti eina stoðsendingu ef marka má tölfræði á heimasíðu þýsku 1. deildarinnar.
TuS Metzingen er þar með í sjötta sæti þýsku 1. deildarinnar með 10 stig eftir átta leiki þegar hlé verður gert á vegna heimsmeistaramóts kvenna í handknattleik sem hefst í Danmörku, Noregi og í Svíþjóð með pompi og pragt 29. nóvember. Bietigheim er efst með 15 stig, hefur unnið sjö leiki og gert eitt jafntefli.
Stöðuna í þýsku 1. deildinni í kvennaflokki og í fleiri deildum Evrópu er að finna hér.
Níunda umferð þýsku 1. deildarinnar fer fram 27. desember. Metzingen með Söndru innanborðs sækir þá Blomberg-Lippe heim og BSV Sachsen Zwickau, sem Díana Dögg Magnúsdóttir leikur með, mætir SV Union Halle-Neustadt.
Sandra er í íslenska landsliðinu sem tekur þátt í heimsmeistaramótinu. Undirbúningur landsliðsins er að hefjast en það fer til Noregs á miðvikudaginn til þátttöku á fjögurra liða móti sem hefst á fimmtudaginn en á því verður hitað upp fyrir átökin á HM.