Jón Gunnlaugur Viggósson þjálfari Víkings var ánægður með spilamennsku sinna manna þrátt fyrir fimm marka tap, 33:28, fyrir Aftureldingu í Safamýri í kvöld.
„Þetta var rosalega flottur og góður leikur að taka þátt í. Spennustigið var rétt. Við vorum grimmir á öllum sviðum sem var gott en það var dýrt þegar upp var staðið að vera 10 mínútum lengur út af en andstæðingurinn,“ sagði Jón Gunnlaugur í samtali við handbolta.is í kvöld. Hann var þó ekki ósáttur við dómgæsluna, sagði leikinn hafa verið vel dæmdan, þótt hann hefði viljað sjá Aftureldingarliðið fara einu sinni eða tvisvar oftar af leikvelli en raun varð á.
Vorum með til enda
„Við vorum inn í leiknum allt til loka og með smá heppni hefðum við tekið eitthvað út úr leiknum. Heilt yfir get ég ekki annað en verið ánægður með spilamennskuna hjá mínum mönnum,“ sagði Jón Gunnlaugur ennfremur.
Dýr upphafskafli
Afturelding var marki yfir í hálfleik, 16:15. Víkingar voru með yfirhöndina framan af áður en Afturelding jafnaði metin rétt undir lok fyrri hálfleiks. „Afturelding náði áhlaupi strax í byrjun síðari hálfleiks og lifði á því forskoti til leiksloka. Það var svekkjandi að missa þá frá okkur en það gerðist þegar við vorum tveimur færri í annað skiptið og síðan manni færri. Það er eitthvað sem við getum sjálfum okkur um kennt,“ sagði Jón Gunnlaugur og bætti við:
„Ég vil undirstrika að spilamennskan var góð hjá okkur og það er með svona spilamennsku í næstu leikjum sem við munum taka óvænt stig.“
Léku lengi sjö á sex
Víkingur lék lengi vel sjö á sex í sókninni. Virtist það herbragð heppnast vel. Jón Gunnlaugur sagði þessa leikaðferð vera þrautæfða og leikmönnum liði vel að leik sjö á sex. Það hafi m.a. verið greinileg merki þess í kvöld.
Skaut okkar í kaf
Þorsteinn Leó Gunnarsson skoraði 12 mörk í leiknum fyrir Aftureldingu í kvöld. Hann hjó oft á hnútinn þegar sóknarleikur Aftureldingar var kominn í óefni. Jón Gunnlaugur sagði erfitt að eiga við Þorstein og þess vegna hafi hann skotið sína menn í kaf.
Staðan og næstu leikur í Grill 66-deild karla.
Mörk Víkings: Halldór Ingi Óskarsson 7/5, Jóhann Reynir Gunnlaugsson 6, Agnar Ingi Rúnarsson 4, Styrmir Sigurðarson 3, Jón Hjálmarsson 2, Halldór Ingi Jónasson 2, Gunnar Valdimar Johnsen 1, Sigurður Páll Matthíasson 1, Brynjar Jökull Guðmundsson 1, Benedikt Emil Aðalsteinsson 1.
Varin skot: Sverrir Andrésson 3, 11,1% – Heiðar Snær Tómasson 2, 18,2%.
Mörk Aftureldingar: Þorsteinn Leó Gunnarsson 12, Ihor Kopyshynskyi 8, Árni Bragi Eyjólfsson 5/1, Blær Hinriksson 3/1, Leó Snær Pétursson 2, Þorvaldur Tryggvason 2, Böðvar Páll Ásgeirsson 1.
Varin skot: Jovan Kukobat 8, 33,3% – Brynjar Vignir Sigurjónsson 3, 20%.
Öll tölfræði leiksins er hjá HBStatz.