„Fyrri hálfleikur var brösóttur hjá okkur en síðari hálfleikur var mjög flottur hjá okkur gegn ungu Framliði,“ sagði hinn þrautreyndi leikmaður ÍBV, Kári Kristján Kristjánsson, í samtali við handbolta.is eftir sigur liðsins, 38:32, á Fram í Olísdeild karla í handknattleik í Úlfarsárdal í kvöld. Þetta var annar sigur ÍBV á Fram á skömmum tíma en liðin mættust í 16-liða úrslitum Poweradebikarsins á sunnudaginn í Eyjum.
Fram, sem var án Rúnars Kárasonar, Marko Coric og Lárusar Helga Ólafssonar að þessu sinni stóð í ÍBV í fyrri hálfleik.
„Mér fannst við vera full værukærir í fyrri hálfleik. Þótt við skoruðum 18 mörk voru við alls ekki nógu beittir að mínu mati. Reynir [Þór Stefánsson leikmaður Fram] skoraði að vild hjá okkur. Við vorum passívari á þá í síðari hálfleik og þá áttu Framarar ekki möguleika. Arnór Viðars náði líka að mæta Reyni í síðari hálfleik með þeim afleiðingum að Reynir gerði ekki sama usla og áður,“ sagði Kári sem sagði sigurinn hafa verið einstaklega kærkominn. Með honum komst ÍBV upp í fjórða sæti og náði tveggja stiga forskoti á Fram sem er í fimmta sæti.
Fjögurra stiga leikur
„Þetta var svokallaður fjögurra stiga leikur og mjög mikilvægur sigur þar sem okkur tókst aðeins að núlla út tapleiki eins og gegn Gróttu og Víkingi.“
Kári lauk lofsorði á varnarmenn ÍBV í leiknum, ekki síst í síðari hálfleik. „Bræðurnir Ívar og Arnór voru flottir í vörninni, Ísak var líka flottur og Petar að verja vel. Við náðum góðu áhlaupum í sókninni,“ sagði Kári og bætti við að svo sannarlega hafi Fram munaði um fjarveru sinna bestu manna, Rúnars og Coric.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.
Mörk Fram: Reynir Þór Stefánsson 10, Ívar Logi Styrmirsson 8/3, Stefán Orri Arnalds 5, Marel Baldvinsson 2, Tryggvi Garðar Jónsson 2, Jóhann Karl Reynisson 1, Daníel Stefán Reynisson 1, Arnar Snær Magnússon 1, Eiður Rafn Valsson 1, Bjartur Már Guðmundsson 1.
Varin skot: Breki Hrafn Árnason 4, 15,4% – Arnór Máni Daðason 2, 11,1%.
Mörk ÍBV: Elmar Erlingsson 9, Daniel Esteves Vieira 5, Arnór Viðarsson 5, Gauti Gunnarsson 4, Dánjal Ragnarsson 3, Ívar Bessi Viðarsson 2, Andrés Marel Sigurðsson 2, Kári Kristján Kristjánsson 2, Sveinn Jose Rivera 2, Breki Þór Óðinsson 1, Dagur Arnarsson 1, Sigtryggur Daði Rúnarsson 1/1, Ísak Rafnsson 1.
Varin skot: Petar Jokanovic 16, 34,8%.
Öll tölfræði leiksins er hjá HBStatz.