Alfreð Gíslason er á leið með þýska landsliðið í handknattleik karla á Ólympíuleikana sem fram fara í Tokýó í Japan í sumar. Það var innsiglað í dag þegar Þjóðverjar unnu Alsírbúa, 34:26, í lokaleik sínum í forkeppni Ólympíuleikanna í Max Schmeling-íþróttahöllinni í Berlín.
Þetta verður í 11. sinn sem þýska landsliðið tekur þátt í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í karlaflokki.
Þjóðverjar fengu fimm stig af sex mögulegum í þremur leikjum í forkeppnisriðli þrjú. Svíar og Slóvenar mætast í lokaleik riðilsins síðar í dag í úrslitaleik um hvort þeirra fylgir Þjóðverjum eftir. Svíar standa betur að vígi fyrir leikinn. Þeir hafa þrjú stig en Slóvenar tvö. Alsírbúar ljúka keppni án stiga.
Keppni stendur yfir í hinum tveimur riðlum forkeppninnar og mun handbolti.is greina frá niðurstöðum þegar kemur fram á kvöldið.