Eftir leik við Pólverja í gær á æfingamótinu í Noregi þá fór dagurinn í dag að mestu leyti í endurheimt og undirbúning fyrir verkefni morgundagsins hjá kvennalandsliðinu í handknattleik. Síðustu tveir leikirnir á mótinu verða á morgun, laugardag, og á sunnudag gegn Noregi og Angóla.
Að loknum staðgóðum morgunverði var farið á styrktaræfingu sem styrktarþjálfari liðsins, Hjörtur Hinriksson stjórnaði. Eftir hádegisverð var liðsfundur þar sem þjálfarateymið ásamt leikmönnum fór yfir leik gærdagsins. Að fundi loknum var haldið á góða æfingu í Lillehammer. Æfingin stóð í yfir um klukkustund. Einbeitingin var góð en á sama tíma létt yfir mannskapnum.
Viðureign Ísland og Evrópu- og heimsmeistara Noregs hefst klukkan 15.45 í Hákonshöll í Lillehammer. RÚV sendir þráðbeint út frá leiknum auk þess sem handbolti.is fylgist með í textalýsingu fyrir þá sem ekki eiga þess kost að horfa á leikinn í viðtækjum.
Fyrsti leikur íslenska landsliðsins á heimsmeistaramótinu verður á fimmtudaginn í Stavangri við landslið Slóvena.
Nokkrar myndir úr safni HSÍ frá æfingum í dag.