Ekkert virðist getað stöðvað Orra Frey Þorkelsson og samherja hans í Sporting Lissabon í portúgölsku 1. deildinni í handknattleik. Þeir unnu sinni 13. leik í gær og það með miklum yfirburðum þegar lið ABC de Braga kom í heimsókn til höfuðborgarinnar. Sporting vann með 23 marka mun, 46:23. Bæði lið eiga einnig sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.
Orri Freyr skoraði fjögur mörk í fimm skotum í leiknum í gær. Samherji Orra Freys, Francisco Costa, skoraði 15 mörk í 16 tilraunum. Bróðir hans, Martim Costa, skoraði fjögur mörk en þeir bræður leika lausum hala hjá liðinu sem faðir þeirra þjálfar.
Sporting var 11 mörkum yfir í hálfleik, 22:11. Liðið hefur 39 stig eftir 13 leiki og er sex stigum á undan Porto sem á reyndar leik til góða gegn Póvoa AC sem fram fer í dag. Þorsteinn Leó Gunnarsson gengur til liðs við Porto næsta sumar eins og kom fram á kótilettukvöldi Aftureldingar á dögunum.
Útivallarsigur hjá Stiven
Benfica, sem Stiven Tobar Valecia leikur með, vann Belenense, 31:25, á útivelli í gær. Stiven kom lítið við sögu og náði ekki að skora úr eina markskotinu sem hann átti í leiknum. Benfica er í þriðja sæti deildarinnar, átta stigum á eftir Sporting.
Stöðuna í portúgölsku 1. deildinni er að finna hér.