Íslenska kvennalandsliðið í handknattleik kom til Skopje í Norður-Makedóníu á öðrum tímanum í nótt eftir langt ferðalag frá Íslandi með þremur millilendingum. Ferðin gekk klakklaust fyrir sig og allur farangur skilaði sér á leiðarenda ferðalöngum til mikils léttis.
Framundan er þátttaka í forkeppni heimsmeistaramótsins með þremur leikjum á föstudag, laugardag og á sunnudag gegn landsliðum Norður-Makedóníu, Grikklands og Litháen. Tvö lið af fjórum komast áfram í umspilsleiki um sæti á HM Spáni. Umspilsleikirnir fara fram í vor.
Tíminn fram að leikjunum verður vel nýttur til æfinga og funda þar sem lagt verður á ráðin undir stjórn Arnars Péturssonar, landsliðsþjálfara.
Eftir hádegið í dag æfði íslenska landsliðið í keppnishöllinni í Skopje. Handbolti.is fékk nokkrar myndir sendar frá æfingunni.
Að sögn Róberts Geirs Gíslasonar, framkvæmdastjóra HSÍ, hefur ekki fengist svar við því hvort leikirnir verði teknir upp og sendir út í sjónvarpi eða á veraldarvefnum.
Leikir Íslands í forkeppni HM:
19. mars, kl. 16.45: Ísland – Norður-Makedónía
20. mars, kl. 18.45: Ísland – Grikkland
21. mars, kl. 18.45: Ísland – Litháen