„Þá var ég algjör kjúklingur með stórstjörnur með mér í liðinu eins og Hröbbu og fleiri. Ég man að það var mikil upplifun fyrir mig og allar í liðinu að stíga þá inn á mikið stærra svið en við höfðum nokkru sinni stigið inn á áður,“ sagði Sunna Jónsdóttir landsliðskona spurð hverju hún muni eftir frá fyrstu þátttöku sinni á stórmóti með landsliðinu, EM í Danmörku í desember 2010.
Þrjú stórmót í röð
EM 2010 var fyrsta stórmótið sem kvennalandsliðið tók þátt í. Eftir komu HM 2011 og EM 2012 en á síðast nefnda mótið komst íslenska landsliðið eftir að hollenska handknattleikssambandið hætti við að vera gestgjafi mótsins hálfu ári áður en það átti að hefjast. Ísland var fyrsta varaþjóð inn á mótið sem haldið var í Serbíu.
„Á EM 2010 var allt stærra í sniðum en ég hafði áður upplifað. Fjölskyldur leikmanna voru með, margir fjölmiðlar voru á staðnum og mikil athygli, ekki bara á okkur heldur á mótinu. Keppnin fór fram í stórri keppnishöll í Árósum og mikil umgjörð. Við vorum í riðli með Króötum, Svartfellingum og Rússum með Trefilov við stjórnvölin.
Ótrúlega gaman
Þetta var ótrúlega gaman þá og verður það einnig núna öllum þessum árum síðar. Ég get aðeins miðlað af reynslunni núna. Maður fann það þá að taka þátt í svona móti var eitthvað sem mann langaði að vera með í. Það tók hinsvegar nokkur ár að endurtaka leikinn. Loksins erum við aftur komnar á þennan stað, að vera með á stórmóti. Þar eigum við að vera,“ sagði Sunna Jónsdóttir ennfremur.
Hverjar eru konurnar 18 í fyrsta HM-hópnum í 12 ár?
Leikmenn íslenska landsliðsins á EM 2010.
Markverðir:
Berglind Íris Hansdóttir, Val.
Íris Björk Símonardóttir, Fram.
Aðrir leikmenn:
Anna Úrsúla Guðmundsdóttir, Val.
Arna Sif Pálsdóttir, Team Esbjerg.
Ásta Birna Gunnarsdóttir, Fram.
Hanna Guðrún Stefánsdóttir, Stjörnunni.
Harpa Sif Eyjólfsdóttir, Spårvägen HF.
Hrafnhildur Ósk Skúladóttir, Val.
Karen Knútsdóttir, Fram.
Rakel Dögg Bragadóttir, Levanger.
Rebekka Rut Skúladóttir, Val.
Rut Arnfjörð Jónsdóttir, Tvis Holstebro.
Sigurbjörg Jóhannsdóttir, Fram.
Sólveig Lára Kjærnested, Stjörnunni.
Sunna Jónsdóttir, Fylki.
Þorgerður Anna Atladóttir, Stjörnunni.
Landsliðsþjálfari var Júlíus Jónasson. Honum til aðstoðar var Finnbogi Grétar Sigurbjörnsson.
Úrslit leikja:
Ísland – Króatía, 25:35.
Ísland – Svartfjallaland, 23:26.
Ísland – Rússland, 21:30.
Hverjar eru konurnar 18 í fyrsta HM-hópnum í 12 ár?