Topplið FH vann nokkuð sannfærandi sigur á KA, 27-34, á Akureyri í öðrum leik kvöldsins í 11. umferð Olís-deildar karla. KA situr þannig áfram í sjöunda sæti deildarinnar með 10 stig en Hafnfirðingar styrkja stöðu sína á toppnum með 19 stig. Á sama tíma í Vestmannaeyjum unnu heimamenn sigur á HK, 32-28. Með sigrinum lyftu Eyjamenn sér upp að hlið Aftureldingar í 3. – 4. sæti með 15 stig en Mosfellingar eiga leik til góða.
Líflegur leikur fyrir norðan
Hafnfirðingar byrjuðu leikinn betur á Akureyri og voru yfir, 1-4, eftir fimm mínútur. Gestirnir héldu KA áfram í þægilegri fjarlægð og leiddu með fimm mörkum, 5-10, er fyrri hálfleikur var hálfnaður. Einar Bragi Aðalsteinsson og Birgir Már Birgisson voru atkvæðamiklir í sóknarleik FH, sem virtist lítið ætla að gefa eftir og komust alls sjö mörkum yfir, 9-16, þegar sex mínútur voru eftir af fyrri hálfleik og stefndi í algjöra einstefnu. Þá komu hins vegar fimm mörk í röð frá KA á fimm mínútum ásamt sterkri markvörslu hjá Nicolai Horntvedt. Staðan var þannig 14-16 fyrir FH þegar flautað var til hálfleiks.
Þeim gul- og bláklæddu tókst að halda í við FH í upphafi seinni hálfleiks en topplið FH sýndi styrk sinn og tókst að auka forskot sitt á nýjan leik og var komið aftur sjö mörkum yfir, 19-26, um miðjan seinni hálfleik. Heimamenn reyndu að svara en árangurslaust. FH-ingar gáfu enn frekar í og komust alls níu mörkum yfir tvisvar sinnum, 22-31 og 23-32 þegar um sjö mínútur voru eftir til leiksloka. Á endanum sigldu gestirnir inn öruggum sjö marka sigri, 27-34.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.
Mörk FH: Einar Bragi Aðalsteinsson 8, Birgir Már Birgisson 8, Símon Michael Guðjónsson 5, Jóhannes Berg Andrason 3, Aron Pálmarsson 3, Einar Örn Sindrason 3, Ásbjörn Friðriksson 2, Jón Bjarni Ólafsson 2.
Varin skot: Daníel Freyr Andrésson 12, 35,3% – Axel Hreinn Hilmisson 2, 28,6%.
Mörk KA: Einar Rafn Eiðsson 11, Ott Varik 3, Skarphéðinn Ívar Einarsson 3, Jens Bragi Bergþórsson 2, Einar Birgir Stefánsson 2, Dagur Árni Heimisson 2, Jóhann Geir Sævarsson 1, Ólafur Gústafsson 1, Magnús Dagur Jónatansson 1, Arnór Ísak Haddsson 1.
Varin skot: Nicolai Horntvedt Kristensen 9, 34,6% – Bruno Bernat 5, 22,7%.
Eyjamenn með tak á HK
Meira jafnræði var með liðunum sem áttust við í Eyjum. Allt var í járnum fyrstu tíu mínúturnar. ÍBV náði að komast tveimur mörkum yfir, 8-6, eftir ellefu mínútna leik og létu það forskot aldrei frá sér falla eftir það. Mest fór forskotið í fimm mörk um miðjan fyrri hálfleik en HK var ekki tilbúið að gefast upp. Liðinu tókst að minnka muninn aftur niður í tvö mörk á síðustu 10 mínutum fyrri hálfleiks en að honum loknum var staðan 16-14 fyrir ÍBV.
Gestirnir komust þó ekki nær en það og ÍBV hélt HK í sæmilegri fjarlægð með tveggja til þriggja marka mun lengst af í seinni hálfleik. Aðeins undir lok leiks teygðist frekar á milli liðanna og ÍBV vann að lokum með fjórum mörkum, 32-28. Pavel Miskevich átti sterkan leik í marki Eyjamanna, varði 17 skot, tæplega 38% markvarsla. Þá var Sigtryggur Daði Rúnarsson allt í öllu í sóknarleik ÍBV, skoraði 10 mörk úr 12 skotum. Markahæstur hjá HK var Kristján Ottó Hjálmsson með 6 mörk.
Mörk ÍBV: Sigtryggur Daði Rúnarsson 10, Daniel Esteves Viera 4, Dagur Arnarsson 3, Sveinn Jose Rivera 3, Gabríel Martinez Róbertsson 2, Andrés Marel Sigurðsson 2, Arnór Viðarsson 2, Danjál Ragnarsson 2, Elmar Erlingsson 2, Gauti Gunnarsson 1, Breki Þór Óðinsson 1
Varin skot: Pavel Miskevich 17, 37,8%.
Mörk HK: Kristján Ottó Hjálmsson 6, Styrmir Máni Arnarsson 4, Hjörtur Ingi Halldórsson 3, Sigurður Jefferson Guarino 3, Kári Tómas Hauksson 3, Haukur Ingi Hauksson 3, Aron Gauti Óskarsson 2, Hafsteinn Óli Berg Ramos Rocha 2, Atli Steinn Arnarson 1, Jón Karl Einarsson 1,
Varin skot: Sigurjón Guðmundsson 13, 28,9%.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.