- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Norðmenn sýndu Grænlendingum enga miskunn

Camilla Herrem fagnar einu af sjö mörkum sínum í kvöld. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Heims- og Evrópumeistarar Noregs í handknattleik kvenna hófu titilvörnina með flugeldasýningu í DNB-Arena í Stafangri. Þrátt fyrir að vera ekki með allar stórstjörnurnar innanborðs þá vann norska liðið það grænlenska, 43:11, eftir að hafa verið 12 mörkum yfir í hálfleik, 19:7.


Grænlenska liðið var ekki öfundsvert af hlutverki sínu að þessu sinni en Grænlendingar eru með á HM í kvenna í fyrsta sinn í rúm 20 ár. Á að giska 100 Grænlendingar fylgdu liði sínu til Stafangurs. Þeir gerðu sitt besta við að styðja liðið gegn því ofurefli sem var við að etja á leikvellinum. Þórir Hergeirsson landsliðsþjálfari hrósaði stuðningsmönnum grænlenska landsliðinu í hástert á blaðamannafundi eftir leikinn. Sagði framkomu þeirra vera öðrum fyrirmynd að styðja lið sitt með ráðum og dáð þótt á brattann væri að sækja.

Rétt í upphafi leiks var jafnt og til dæmis skoraði grænlenska liðið fjögur af fyrstu níu mörkum leiksins áður en Norðmenn settu allt á fulla ferð og skoraði átta mörk í röð og breytti stöðunni úr 8:6 í 16:6.

Stuðningsmenn grænlenska landsliðsins létu ekki yfirburði norska landsliðsins slá sig út af laginu. Mynd/EPA

Herrem markahæst

Heimakonan Camilla Herrem skoraði sjö mörk og var markahæst í norska landsliðinu. Hún var að leika sinn fyrsta mótsleik með Noregi í nærri tvö ár en hún var fjarri góðu gamni á EM fyrir ári en þá var hún barnshafandi. Stine Skogrand skoraði sex mörk og Maja Sæteren skoraði fimm sinnum.
Ivana Meincke leikmaður Stjörnunnar var í leikmannahópi grænlenska landsliðsins og lék með í nærri átta mínútur en tókst ekki að skora.

Leikmenn austurríska landsliðsins fagna sigrinum á Suður-Kóreu. Mynd/EPA

Sigurmark úr vítakasti

Í fyrri leik dagsins í C-riðli vann Austurríki lið Suður Kóreu, 30:29. Sigurmarkið var skorað úr vítakasti eftir að leiktíminn var úti. Suður Kórea hafði áður skorað tvö mörk í röð og virtist hafa tryggt sér annað stigið með jöfnunarmarki sex sekúndum fyrir leikslok. Leikmenn uggðu ekki að sér eftir jöfnunarmarkið og austurríska liðið sem var sterkara allan leikinn vann verðskuldaðan sigur sem var kærkominn eftir miklar hremmingar á HM fyrir tveimur árum þegar covid lagði þjálfara og leikmenn í umvörpum svo liðið náði varla að ljúka keppni.


Einnig hófst í kvöld keppni í G-riðli í Frederikshavn. Brasilíumenn fór létt með landslið Úkraínu, 35:20, í upphafsleiknum. Spánverjar lögðu Kasaka í síðari viðureigninni, 34:17.

Leikjadagskrá, úrslit og stöðuna á HM er að finna hér.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -