„Þetta var þriðji leikur okkar við Val í vetur og um leið þriðji sigurinn. Stundum æxlast hlutirnir þannig að menn hafa óbilandi trú á að þeir geti unnið ákveðin lið umfram önnur. Við mættum hingað með þá trú á að við gætum unnið enda kom það í ljós að við börðumst til síðustu sekúndu fyrir báðum stigunum,“ sagði Kristinn Guðmundsson þjálfari karlaliðs ÍBV, eftir að liðið vann nauman sigur á Val, 29:28, í Olísdeild karla í handknattleik í Origohöllinni í gærkvöld. Eyjamenn voru fjórum sinnum yfir í leiknum og allt upp í sex mörkum undir á kafla.
„Valsliðið er sterkt en það lenti í mesta basli gegn 5/1 vörn okkar í síðari hálfleik. Frammistaða strákanna var mjög góð. Þeir gáfust aldrei upp. Björn Viðar Björnsson átti frábæra innkomu í markið á síðustu mínútunum eftir að Petar Jankovic hafði verið góður lengst af í markinu. Þetta var sannkallaður liðsheildarsigur,“ sagði Kristinn glaður í bragði ólíkt kollega sínum hjá Val.
„Við vorum í tómu basli í sóknarleiknum í fyrri hálfleik, óöruggir í aðgerðum, misstum boltann á einfaldan hátt og fengum mörk í bakið á okkur fyrir vikið. Gerðum lífið erfitt fyrir okkur. Við vorum heppnir að vinna okkur inn í leikinn rétt fyrir hálfleik eftir að hafa verið sex mörkum undir á kafla,“ sagði Kristinn sem var mun sáttari við síðari hálfleik þótt áfram hafi verið nokkuð um sóknarmistök hjá liði hans.
„Aðallega vorum við í vandræðum á kafla í síðari hálfleik þegar við misstum Sigtrygg Daða Rúnarsson af leikvelli um tíma vegna meiðsla. Okkur tókst að safna vopnum okkar eftir að hann kom aftur til leiks. Þegar leikurinn er gerður upp er ég ánægður með hvernig við unnum okkur þó út úr erfiðum leik eftir að hafa lent ítrekað þremur og fjórum mörkum undir,“ sagði Kristinn ennfremur.
Fannar Þór Friðgeirsson lék með ÍBV-liðinu á nýjan leik eftir sex vikna fjarveru vegna meiðsla. Kristinn sagði það miklu máli skipta að endurheimta Fannar Þór og hans reynslu. „Breiddin í leikmannahópnum eykst með hverjum þeim sem kemur inn sem auðveldar okkur um leið að lifa svona leiki af,“ sagði Kristinn Guðmundsson, þjálfari ÍBV í samtali við handbolta.is í Orighöllinni í gærkvöld.