„Þetta er bara frábær tilfinning og stórkostlegt að enda keppnina með bikar í höndum,“ sagði Andrea Jacobsen landsliðskona í handknattleik og hluti af sigurliði Íslands í keppninni um forsetabikarinn á heimsmeistaramótinu þegar handbolti.is hitti hana að máli eftir sigurinn á Kongó í kvöld, 30:28. Þetta var fjórði sigur Íslands í keppninni og tryggði liðinu um leið hinn umtalaða forsetabikar.
„Við höfum fengið 10 leiki saman á þremur vikum sem er hreint meiriháttar fyrir okkur og mikið meira en við fáum oft á heilu ári. Þátttakan og leikirnir fara beint í reynslubankann okkar og styrkir liðið í heild til framtíðar,“ sagði Andrea.
„Þetta er minning sem maður mun taka með sér til næstu ára þótt um sé að ræða forsetabikar en ekki milliriðlakeppni eins og við stefndum að. Þetta er frábær upplifun. Við vorum allar á síðustu bensíndropunum og komnar með ógeð hver á annarri eftir þriggja vikna samveru,“ sagði Andrea og brosti sínu breiðasta og meinti nú ekki allt alveg bókstaflega.
„Þessi verður fagnað í kvöld. Við lifum á þessu fram að næsta leik,“ sagði Andrea Jacobsen í samtali við handbolta.is í Arena Nord í Frederikshavn í kvöld.
Bikar með heim og góðar minningar
Forsetabikarinn fer til Íslands!
Átta mörk skoruð eftir gegnumbrot