„Það var frábært að þetta hafðist hjá okkur. Leikurinn í kvöld var sá tíundi á tuttugu dögum og ekkert óeðlilegt þótt komin væri þreyta í mannskapinn. Fyrir vikið var leikurinn erfiður en ég er mjög stoltur af stelpunum hvernig þær kláruðu leikinn,“ sagði Arnar Pétursson landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik eftir að íslenska landsliðið lauk þátttöku sinni á heimsmeistaramótinu í gærkvöld með fjórða sigurleiknum í röð og hreppti um leið forsetabikarinn.
Íslenska landsliðið vann Kongó, 30:28, eftir að hafa sýnt mikla þrautseigju á síðustu mínútunum þegar virtist geta brugðið til beggja vona.
Jákvæð upplifun
„Titill er alltaf titill og við fögnum því um leið fáum við mjög jákvæða upplifun af mótinu í heild sinni. Við tökum margt með okkur úr þessu móti inn í framtíðina, þar á meðal mikla reynslu sem á eftir að nýtast mjög,“ sagði Arnar og undirstrikaði m.a. mikilvægi þess að hafa komist í úrslitaleik á heimsmeistaramóti þótt um 25. sætið væri að keppa. Það væri eitt og sér um nýja reynslu að ræða fyrir allan hópinn.
Ekki endilega viðbúið
„Pressan er meiri auk þess sem það blasti við okkur veglegur bikar þegar við mættum inn í salinn í upphitun, eitthvað sem við áttum ekkert endilega von á. Mér fannst eftir hörkuleik við standast pressuna mjög vel,“ sagði Arnar.
Engin alvarleg meiðsli
Arnar segir það mjög áhugavert að eftir 10 leiki á 20 dögum þá fari hver einasti leikmaður liðsins til síns félags í góðu líkamlegu ástandi. Engin alvarleg meiðsli hafi komið upp. Ástandið segi meira en mörg orð um hópinn í heild.
Frábært teymi
„Allir leikmenn eru í toppstandi eftir 10 leiki og 20 dögum. Allar voru klárar í þennan leik eftir allan þennan tíma sem er mjög áhugavert. Það er ekki síst að þakka því frábæra teymi sem er með mér í þessu, Hjörtur styrktarþjálfari, sjúkraþjálfararnir Jóhanna og Tinna, Jóhann læknir, þjálfararnir Gústi og Hlynur og Obba liðsstjóri.
Er ótrúlega ánægður
Það hefur frábærlega haldið utan um hópinn af hálfu HSÍ og svo sannarlega faglega unnið á allan hátt. Stelpurnar voru líka samviskusamar og hugsuðu mjög vel um sig eins og þarf á svo löngu og ströngu móti. Ég er ótrúlega ánægður með að skila leikmönnum aftur til sinna félaga í toppstandi, engin meiðsli þótt þær séu orðnar þreyttar eftir langa og stranga törn. Það er svo annað mál. Hver einasti leikmaður er klár í slaginn með sínum félagsliðum,“ sagði Arnar Pétursson landsliðsþjálfari í samtali við handbolta.is í Nord Arena í Frederikshavn í gærkvöld.