Steinunn Björnsdóttir, fyrirliði kvennalandsliðsins í handknattleik, meiddist illa á hægra hné eftir ríflega 14 mínútna leik gegn Norður-Makedóníu í forkeppni heimsmeistaramótsins í Skopje í dag.
Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari, sagði í samtali við handbolta.is fyrir stundu að ekki væri hægt að segja til um hvers eðlis meiðsli Steinunnar væri enda stutt liðið frá leiknum. Hinsvegar sagði hann allt benda til þess að Steinunn leiki ekki meira með íslenska landsliðinu í forkeppninni. Tveir leikir eru eftir gegn Grikklandi og Litháen á morgun og á sunnudag.
„Steinunn fer í skoðun þegar við komum heim eftir helgina en ég held að það sé ljóst að hún verður ekki meira með okkur um helgina,“ sagði Arnar og bætti við.
„Það var mikið áfall fyrir okkur að missa Steinunni út úr leiknum snemma í dag og sló okkur út af laginu. Ég vil hrósa stelpunum fyrir að koma til baka í byrjun síðari hálfleiks,“ sagði Arnar Pétursson landsliðsþjálfari.