Janus Daði Smárason landsliðsmaður og leikmaður Evrópumeistara SC Magdeburg er orðaður við ungverska stórliðið Pick Szeged í vefútgáfu Bild í Þýskalandi í dag. Janus Daði gekk til liðs við SC Mageburg í ágúst frá Kolstad í Noregi á eins árs samningi og til að fylla skarð Gísla Þorgeirs Kristjánssonar sem var frá vegna meiðsla. Enn sem komið er hefur Magdeburg ekki boðið Janusi Daða nýjan samning.
Pick Szeged er annað af tveimur stóru félagsliðunum í Ungverjalandi. Hitt er Telekom Veszprém sem Bjarki Már Elísson leikur með.
Svíinn Michael Apelgren, sem var um skeið orðaður við starf landsliðsþjálfara karla hér á landi í vor, tekur við þjálfun Pick Szeged í sumar. Hann virðist ætla að stokka upp leikmannahópinn ef marka má orðróm um félagaskipti síðustu daga. Svíinn Jim Gottfridsson hefur m.a. verið sterklega orðaður við Pick Szeged auk fleiri leikmanna frá Norðurlöndunum.
Janus Daði hefur leikið mjög vel með Magdeburg síðustu vikur og því skal engan undra þótt stórlið líti Selfyssinginn hýru auga um þessar mundir.
Stefán Rafn Sigurmannsson er eini íslenski handknattleiksmaðurinn sem leikið hefur með Pick Szeged. Hann gerði það gott með liði félagsins frá 2017 til 2021 og varð m.a. ungverskur meistari í tvígang og bikarmeistari einu sinni.
Szeged er þriðja fjölmennasta borg Ungverjalands og er staðsett í suðurhluta landsins. Um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar fannst olíulind skammt frá borginni.