Ída Bjarklind Magnúsdóttir hefur skrifað undir nýjan samning við handknattleiksdeild Víkings, eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá deildinni. Ída Bjarklind er markahæsti leikmaður Víkings eftir 10 leiki í Grill 66-deildinni með 74 mörk en Víkingur er í þriðja sæti deildarinnar.
Ída Bjarklind kom til Víkings frá Stjörnunni fyrir tveimur árum síðan og hefur stimplað sig inn sem lykilmaður í liðinu bæði í vörn og sókn. Hún var meðal annars valin besti leikmaður meistaraflokks kvenna á síðasta tímabili.
„Ída er frábær leikmaður sem hefur spilað lykilhlutverk í liðinu síðustu ár. Hún hefur einnig bætt sig mikið á tíma sínum hjá Víking og gefur mikið af sér innan vallar sem utan. Við erum gríðarlega ánægð að fá að vinna áfram með henni.” sagði Jón Brynjar Björnsson þjálfari Víkings í áðurnefndri tilkynningu.