- Auglýsing -
- Annika Fríðheim Petersen, markvörður Hauka og færeyska landsliðsins fær mikið lof fyrir frammistöðu sína í tveimur leikjum með færeyska landsliðinu í forkeppni heimsmeistaramótsins sem fram fóru í gær og í fyrradag. Petersen varði 17 skot og var valin besti leikmaður liðsins í 21:13, tapi á móti Hvít-Rússum á föstudaginn. Hún varði 11 skot á 50 mínútum í gær þegar Færeyingar töpuðu fyrir Sviss, 26:18. Leikið var í Minsk í Hvíta-Rússlandi.
- Harpa Valey Gylfadóttir og Tinna Sól Björgvinsdóttir skoruðu í gær sín fyrstu mörk fyrir A-landslið kvenna er landsliðið vann Grikki, 31:19, í forkeppni HM í handknattleik. Ásdís Guðmundsdóttir, sem einnig leikur sína fyrstu A-landsleiki í forkeppninni, skoraði sitt fyrsta landsliðsmark í fyrrakvöld í leik við Norður-Makedóníu.
- Anne Mette Hansen var markahæst hjá danska landsliðinu þegar það tapaði aftur fyrir silfurliði EM 2020, Frakklandi, í vináttleik í París í gær, 24:23. Frakkar skoruðu fimm síðustu mörk leiksins en Danir voru fjórum mörkum yfir, 23:19, yfir þegar átta mínútur voru til leiksloka. Frakkar unnu einnig fyrri leikinn, 26:22, á föstudagskvöld.
- Spænski landsliðsmaðurinn Daniel Dujshebaev meiddist alvarlega á hné í undanúrslitaleik Vive Kielce og Wisla Plock í undanúrslitum pólsku bikarkeppninnar á fimmtudagskvöld. Hann greindi frá því í gær en ekki í hverju meiðslin felast. Dujshebaev verður frá keppni næstu mánuði og er óvíst að hann taki þátt í Ólympíuleikunum í sumar með spænska landsliðinu. Þetta er því miður ekki í fyrsta sinn sem Dujshebaev verður fyrir alvarlegum hnémeiðslum.
- Danski handknattleiksmarkvörðurinn Søren Haagen, sem er samherji Viktors Gísla Hallgrímssonar hjá GOG, hefur ákveðið að ganga til liðs við HØJ Elitehåndbold á næsta keppnistímabili. Haagen er 46 ára gamall og er einn reyndasti markvörður Dana. Auk þess að leika lengi með GOG hefur Haagen verið markvörður hjá Flensburg, THW Kiel, Mors-Thy, Ribe-Esbjerg, KIF Kolding á ferli sem spannar meira en aldarfjórðung. Hann á 79 A-landsleiki að baki.
- Auglýsing -