Íslenska kvennalandsliðið í handknattleik er komið áfram í umspil um sæti á HM eftir tíu marka öruggan sigur á landsliði Litháen, 33:23, í A1 Arena SC Boris Trajkovski-íþróttahöllinni í Skopje í lokaleiknum í riðli Íslands í forkeppni HM. Íslenska liðið var með talsverða yfirburði í leiknum frá upphafi til enda. M.a. var tíu marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 19:9.
Mestur varð munurinn 14 mörk þegar komið var vel fram í síðari hálfleik, 27:13.
Ásamt Ísland fer landslið Norður-Makedóníu áfram úr þessum riðli en einnig komust landslið Slóvakíu, Úkraínu, Austurríkis, Ítalíu, Sviss og Hvíta-Rússlands áfram úr forkeppninni. Lið þessara þjóða verða í neðri styrkleikaflokki þegar dregið verður í umspilið 22. mars. Í efri styrkleikaflokki verða sterkari landslið.
Fyrri umferð umspilsins fer fram 16. og 17. apríl og sú síðari 20. og 21. apríl. Sigurliðin úr umspilinu tryggja sér sæti á HM sem fram fer á Spáni í byrjun desember.
Mörk Íslands: Lovísa Thompson 6, Ásdís Guðmundsdóttir 4, Birna Berg Haraldsdóttir 4, Rut Arnfjörð Jósndóttir 4/1, Sigríður Hauksdóttir 4, Tinna Sól Björgvinsdóttir 4, Eva Björk Davíðsdóttir 2, Ragnheiður Júlíusdóttir 2, Harpa Valey Gylfadóttir 2, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir 1.
Varin skot: Elín Jóna Þorsteinsdóttir 10/1 – 38% – Saga Sif Gísladóttir 1, 17%.