- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ég tek þessu tækifæri opnum örmum

Stiven Tobar Valencia tekur í fyrsta sinn þátt í stórmóti á EM í Þýskalandi en vika er í fyrsta leik Íslands. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Tilhlökkunin er mikil að taka þátt í fyrsta stórmótinu,“ sagði Stiven Tobar Valencia landsliðsmaður í handknattleik karla í samtali við handbolta.is. Stiven Tobar er annar tveggja leikmanna landsliðshópsins sem valinn var fyrir Evrópumótið sem tekur þátt í stórmóti landsliða í fyrsta sinn. Hinn er Einar Þorsteinn Ólafsson. Ólíkt Einar Þorsteini þá lék Stiven Tobar oft með yngri landsliðum Íslands á stórmótum.

Andri Már og Þorsteinn verða eftir heima – EM-hópurinn tilkynntur

Fyrstu landsleikirnir í mars


Stiven Tobar segist njóta þess að vel hafi gengið á leikvellinum síðustu misseri. Hann lék sína fyrstu landsleiki gegn Tékkum í mars á nýliðnu ári og síðan hafi hann tekið þátt í fleiri verkefnum landsliðsins sem sprottið hafi upp úr góðu gengi hans með Val. Framfarirnar hafi verið hraðar.

Stórmótsnýliðarnir, Einar Þorsteinn Ólafsson og Stiven Tobar Valencia. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Margt gerst á skömmum tíma

„Fyrir tveimur árum hefði ég ekki búist við að vera í þessum sporum tveimur árum síðar. Margt hefur gerst á skömmum tíma hjá mér sem er bara skemmtilegt,“ sagði Stiven sem er 23 ára gamall og gekk til liðs við Benfica í Portúgal á síðasta sumri frá uppeldisfélagi sínu Val.

„Samkeppnin um stöðu í landsliðinu er hörð. Það er margir frábærir leikmenn sem eru í sömu stöðu og ég og því var alls ekkert gefið þegar hópurinn var valinn að ég yrði endilega í honum. En svo sannarlega tek ég þessu tækifæri opnum örmum og fer í það af fullum krafti,“ sagði Stiven sem segir það kærkomið að kynnast þeirri reynslu að taka þátt í stórmóti í viðbót við það skref sem hann tók í sumar með flutningi til Lissabon í Portúgal.

Annað andrúmsloft

Síðustu mánuðir í portúgalska handboltanum hafa verið lærdómsríkir. Ýmislegt hafi komið á óvart annað ekki. „Heilt yfir hefur mér bara gengið vel. Sportinu fylgir alltaf einhver óvissa. Maður getur ekki alltaf verið viss um hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Maður er í liði en samt ekki í liði því samkeppnin um stöður er mikil. Andrúmsloftið er annað en heimA á Íslandi þar sem maður hefur meira utanumhald og meiri vinskapur innan leikmannahópsins. Úti er maður aðeins meira einn,“ segir Stiven sem kann að mörgu leyti vel við sig í Portúgal.

Við náum alltaf saman

Stiven talar reiprennandi spænsku og þótt þónokkur munur sé á spænsku og portúgölsku þá auðveldar spænskukunnáttan honum að komast inn í heimamálið. „Ég tala bjagaða portúgölsku og heimamenn bjagaða spænsku við mig. Við náum alltaf saman á einhvern hátt,“ sagði Stiven Tobar Valencia landsliðsmaður í handknattleik glaður í bragði að vanda.

EM í handknattleik karla hefst 10. janúar í Düsseldorf í Þýskalandi og stendur til 28. janúar. 
Leikir Íslands í C-riðli EM í München:
12. jan.: Ísland – Serbía, kl. 17.
14. jan.: Ísland – Svartfj. land, kl. 17.
16. jan.: Ísland – Ungv.land, kl. 19.30.
Vináttuleikirnir við Austurríki fara fram á laugardaginn og á mánudaginn í Vínarborg og Linz. Báðir leikir hefjast klukkan 17.10 og verða sendir út á RÚV.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -