- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Lék síðast heima í fjórða flokki

Meistarar meistaranna 2020, karlalið ÍBV. Mynd/ÍBV
- Auglýsing -

Handknattleiksmaðurinn Sigtryggur Daði Rúnarsson lék sinn fyrsta opinbera keppnisleik í meistaraflokki hér á landi á sunnudagskvöldið þegar hann klæddist treyju ÍBV gegn Val í Meistarakeppni HSÍ. Það væri svo sem ekki frásögur færandi ef hann væri ekki orðinn 24 ára gamall og ætti að baki fjölda leikja og áralanga reynslu úr tveimur efstu deildunum í Þýskalandi, með EHV Aue, Lübeck-Schwartau og Balingen. 

„Ég lék síðast hér heima í fjórða flokki vorið 2012,“ sagði Sigtryggur brosti þegar handbolti.is hitti hann að máli í Origo-höllinni eftir leikinn á sunnudaginn sem ÍBV vann, 26:24,

Sigtryggur flutti heim í sumar eftir átta ár í Þýskalandi. Þangaði flutti hann með foreldrum sínum, Rúnari Sigtryggssyni og Heiðu Erlingsdóttur og systkinum sumarið 2012. Þá hafði faðir hans verið ráðinn þjálfari 2.deildarliðs EHV Aue.

Ekki langt að sækja hæfileikana

Sigtryggur á ekki langt að sækja handknattleikshæfileikana. Rúnar og Heiða gerðu bæði garðinn frægan á handboltavellinum á sínum tíma og léku fjölda landsleikja. Heiða lék með frábæru liði Víkings á níunda og tíunda áratugnum. Rúnar, sem er frá Akureyri, lék með nokkrum félagsliðum hér heima en einnig í Þýskalandi og á Spáni um árabil. Ekki má gleyma afanum, Sigtryggi Árna Heiðberg Guðlaugs, sem um langt skeið var einn burðarása í handknattleiksliði Þórs á Akureyri.

Yngri bróðir, Sigtryggs, Andri Már, hefur einnig vakið verðskuldaða athygli fyrir hæfileika sína á handboltavellinum. Andri gekk til liðs við Fram í sumar eftir að hafa leikið með Stjörnunni síðustu tvö ár. Það kemst því sennilega fátt annað að en handbolti þegar fjölskyldan kemur saman.

Sigtryggur, sem getur bæði leikið sem vinstri skytta og miðjumaður, samdi við ÍBV til þriggja ára. Hann lék með yngri landsliðum Íslands og var m.a. í bronsliði U18 ára á heimsmeistaramótinu í Rússlandi fyrir fimm árum.

„Það er talsvert liðið frá síðasta félagsliðaleik hér heima. En það gaman að vera kominn heim og ekki skemmir fyrir að byrja á leik þar sem barist er um verðlaun og bikar,“ sagði Sigtryggur sem flutti til Vestmannaeyja í sumar og er þess vegna  enn spölkorn frá fjölskyldunni á höfuðborgarsvæðinu þótt sannarlega sé styttra nú en áður. Fjölskyldan flutti heim fyrir rétt rúmum tveimur árum.

Fyrst og fremst leikmaður ÍBV

Sigtyggur hefur ekki gefið upp á bátinn að halda út á nýjan leik. „Nú um stundir er ég fyrst og fremst leikmaður ÍBV, einbeiti mér að því, en vissulega hef ég ekki gefið upp á bátinn að fara út til Evrópu á ný til þess að leika handbolta og ná lengra, þróast sem handknattleiksmaður.

Ég ætla hinsvegar að njóta þess að vera kominn heim og leika með ÍBV. Ef tækifæri bjóðast þá skoða ég möguleikana, kosti og galla. Ég hlakka til að halda áfram að æfa undir stjórn Erlings [Richardssonar] og Kristins [Guðmundssonar]. Þeir hafa sýnt og sannað sem þjálfarar að undir þeirra stjórn hafa margir handknattleiksmenn vaxið og dafnað og farið frá þeim sterkari en þegar þeir komu til þeirra. Þess vegna lít ég það sem mjög gott tækifæri fyrir mig á þessum stað á ferlinum að njóta leiðsagnar þeirra. Ég er kominn í gott  umhverfi sem handknattleiksmaður,“ sagði Sigtyggur Daði Rúnarsson, einn nýrra leikmanna handknattleiksliðs ÍBV.

  • Sigtryggur verður í eldlínunni með ÍBV þegar liðið sækir ÍR heim í kvöld í upphafsleik Olísdeildar karla. Flautað verður til leiks í Austurbergi klukkan 18.
Sigtryggur Daði Rúnarsson, leikmaður ÍBV. Mynd/Eyjafréttir
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -