„Ég vissi ekki hvað var mikið eftir svo ég varð bara drífa mig fram og taka skot,“ sagði Sigvaldi Björn Guðjónsson sem skoraði jöfnunarmark íslenska landsliðsins gegn Serbum í upphafsleiknum á Evrópumótinu í kvöld, 27:27, eftir að íslenska liðið var þremur mörkum undir þegar skammt var til leiksloka og tveimur mörkum undir þegar 35 sekúndur voru eftir af leiktímanum.
Þegar vonin ein var eftir – ævintýralegt jafntefli
„Eitt stig, jafntefli. Við verðum að vera sáttir við það úr því sem komið var í leiknum. Innst inni erum við ekki sáttir við jafntefli því við ætluðum okkur sigur. Því miður þá klúðruðum við mörgum færum, ekki síst dauðafærum. Auk þess fannst mér ekki nógu mikið flæði í sóknarleiknum og við taka of mikið af leiðinlegum skotum,“ sagði Sigvaldi Björn sem fannst leikurinn einnig vera mjög kaflaskiptur.
„Við lentum í þeirri stöðu í síðari hálfleik að vera alltaf að elta sem varð til þess að leikurinn varð okkur mjög erfiður. En okkur tókst að sýna mikinn karakter í lokin,“ sagði Sigvaldi Björn Guðjónsson sem skoraði sex mörk í leiknum í kvöld.
Lengri hljóðritað viðtal við Sigvalda Björn Guðjónsson er að finna hér fyrir neðan.