„Við vorum bara slappir sóknarlega í gær, tölvuvert frá okkar besta og eigum talsvert mikið inni. Það sem var ef til vill verst var að það margt í sóknarleiknum sem vantaði upp á. Ég get talið upp mörg atriði,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari karla í handknattleik í samtali við handbolta.is fyrir æfingu landsliðsins í München eftir hádegið í dag. Vitanlega var Snorri þá búinn að kryfja leikinn til mergjar og fara yfir hann með leikmönnum sínum.
„Við vorum til dæmis hægir í sóknarleiknum, hnoðuðumst alltof mikið, lékum hægt og tímasetningar manna voru ekki lagi og svo margt sem var alls ekki viðunandi. Við verðum að bretta upp ermar og gera mikið betur. Um það eru allir sammála,“ sagði Snorri Steinn ennfremur.
Landsliðsþjálfarinn sagði að ekki standi til að breyta um hernaðaráætlun í sókninni. „Ég tel okkur vera það góða að við eigum að halda í það en gera hlutina bara betur. Mér finnst málið snúast fyrst og fremst um það,“ sagði Snorri og varaði við að menn gefi eftir við varnarleikinn vegna þess að herða þurfi róðurinn í sóknarleiknum.
„Við getum ekkert hallað okkur aftur og haldið að við séum frábært varnarlið. Við verðum að halda áfram og hamra járnið.“
Um næsta andstæðing á mótinu sagði Snorri Steinn að landslið Svartfellinga hafi yfir að ráða mjög góðum skyttum sem hafi getu til þess að skjóta af löngu færi. Ekkert nýtt hafi komið fram í leik Svartfellinga í gær gegn Ungverjum.
„Þeir hafa leikið mjög vel í síðustu leikjum enda með fínt lið, gera sitt vel og eru hættulegir,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari karla í handknattleik í samtali við handbolta.is í dag.
Lengri hljóðritaða útgáfu af viðtalinu er að finna hér fyrir neðan.