- Auglýsing -
- Bjarni Ófeigur Valdimarsson og félagar í Skövde eru komnir í góða stöðu í rimmu sinni við Alingsås í 8-liða úrslitum sænsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik eftir sigur í annarri viðureign liðanna í gærkvöld á heimavelli Alingsås, 27:22. Skövde hefur þar með tvo vinninga en Alingsås engan.
- Þriðja viðureign liðanna fer fram á heimavelli Skövde á sunnudaginn og vinni liðið er það komið í undanúrslit. Bjarni Ófeigur skoraði ekki mark fyrir Skövde í gærkvöld og Aron Dagur Pálsson lék ekki með Alingsås vegna meiðsla sem hann hefur glímt við allan mánuðinn.
- Kiel komst á kunnulegar slóðir í þýsku 1. deildinni í gærkvöld því eftir sigur á Leipzig, 31:21, á heimavelli. Þýsku meistararnir eru komnir í efsta sæti deildarinnar. Liðið hefur 33 stig eftir 18 leiki og er stigi á undan Flensburg og Magdeburg. Síðarnefnda liðið á að baki 21 leik en Flensburg 18 eins og Kiel.
- Ekkert varð af leik Kristjáns Arnar Kristjánssonar, Donna, og félaga í PAUC gegn Ivry í frönsku 1. deildinni í gærkvöld. Kórónuveiran gerir mönnum gramt í geði í Frakklandi eins og víða annarstaðar og mörg lið berjast við smit og verða að fresta leikjum.
- Gunnar Pettersen, fyrrverandi landsliðsþjálfari Noregs, og Glenn Solberg núverandi landsliðsþjálfari Svía, hafa tekið að sér þjálfun ungmenna hjá norska liðinu Nøtterøy Håndball.
- Manuel Späth, fyrrverandi landsliðsmaður Þýskalands, hefur ákveðið að kveðja Porto í sumar og ganga til liðs við HSV Hamburg sem virðist vera á leið upp í 1. deild á ný eftir þyrnum stráða slóð undanfarin ár eftir gjaldþrot um miðjan síðasta áratug.
- Marco Onteo hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér aftur í landslið Chile. Onteo sem er 38 ára gamall hefur átt sæti í landsliðinu í 23 ár. Oneto er einn þekktasti handknattleiksmaður Chile og hefur í gegnum tíðina m.a. leikið með Barcelona, Veszprém og Magdeburg.
- Auglýsing -