- Auglýsing -
- Ísland og Þýskaland hafa aðeins mæst tvisvar sinnum á Evrópumóti karla í handknattleik, 2002 í Västerås í Svíþjóð og í Þrándheimi í Noregi sex árum síðar.
- Síðast þegar lið þjóðanna áttust við á EM, þ.e. fyrir 16 árum á hrollköldum degi í Þrándheimi var Alfreð Gíslason landsliðsþjálfari Íslands en Heiner Brand stýrði þýska landsliðinu sem var þá heimsmeistari. Þeir höfðu unnið titilinn á heimavelli árið áður í fyrsta sinn frá 1978 og í fyrsta skipti eftir sameiningu þýsku ríkjanna.
- Alfreð er að þessu sinni þjálfari þýska landsliðsins og verður andstæðingur íslenska landsliðsins.
- Þjóðverjar unnu leikinn í Þrándheimi afar örugglega, 35:27. Snorri Steinn Guðjónsson núverandi landsliðsþjálfari Íslands var markahæstur í leiknum með 11 mörk. Guðjón Valur Sigurðsson var næstur með sex mörk.
- Ísland vann leikinn á EM 2002, 29:24, á mjög sannfærandi hátt. Liðið lék frábærlega undir stjórn Guðmundar Þórðar Guðmundssonar. Heiner Brand var þá tekinn við þýska landsliðsinu. Patrekur Jóhannesson var markahæstur með átta mörk. Sigfús Sigurðsson var næstur með sjö mörk.
- Á Ólympíuleikunum í Peking sumarið 2008 mættust Ísland og Þýskaland næst á stórmóti, sex mánuðum eftir leikinn á EM í Þrándheimi. Íslenska landsliðið vann örugglega, 33:28. Snorri Steinn var markahæstur í íslenska landsliðinu með átta mörk. Christian Zeitz fékk rautt spjald í leiknum fyrir harkalegt brot á Snorra Steini.
- Á HM 2011 voru Þjóðverjar fyrstu andstæðingar íslenska landsliðsins í milliriðli. Leikið var í Jönköping í Svíþjóð. Þýska liðið vann eftir hörkuleik, 27:24. Tapið var upphafið að fjögurra leikja taphrinu íslenska landsliðsins á mótinu eftir sigur í fimm fyrstu leikjunum. Alexander Petersson skoraði sjö mörk fyrir íslenska liðið í leiknum og Róbert Gunnarsson var næstur á eftir með fimm mörk.
- Síðast mættu Íslendingar Þjóðverjum á stórmóti á HM í Þýskalandi 2019. Fyrsti leikur í milliriðli eins og í kvöld þegar lið þjóðanna eigast við í fyrstu umferð í milliriðlakeppni EM. Ísland var á eftir frá upphafi í leiknum í Lanxess-Arena í Köln 19. janúar 2019 og tapaði með fimm marka mun, 24:19, að viðstöddum 20 þúsund áhorfendum í rífandi stemningu á laugardagskvöldi.
- Aron Pálmarsson og Arnór Þór Gunnarsson meiddust báðir í leiknum við Þjóðverja í Lanxess-Arena 2019. Kom það mjög niður á leik íslenska landsliðsins. Næstu tveir leikir töpuðust einnig, gegn Frakklandi og Brasilíu, og niðurstaðan varð 11. sæti af 24 þátttökuliðum. HM 2019 var það síðasta með 24 liðum. Þeim var fjölgað um átta í 32 frá og með HM 2021.
- Guðmundur Þórður var landsliðsþjálfari Íslands á HM 2019. Hann hafði tekið við starfinu í þriðja sinn á ferlinum 11 mánuðum fyrr.
- Christian Prokop var landsliðsþjálfari Þýskalands 2019. Hann tók við af Degi Sigurðssyni 2017. Prokop hætti eftir EM 2020 og Alfreð Gíslason tók við í mars eftir að verið nærri búinn að semja við rússneska handknattleiksssambandið um að taka að sér þjálfun karlandsliðs Rússlands. Prokop er núverandi þjálfari Hannover-Burgdorf.
- Auglýsing -