„Sem betur fer er mikið sjálfstraust innan liðsins. Við megum ekki við því að misstíga okkur í barráttunni um að komast upp í efstu deild,“ segir handknattleikskonan Díana Dögg Magnúsdóttir í samtali við handbolta.is. Lið hennar BSV Sachsen Zwickau vann í gær níunda leikinn í röð í þýsku 2. deildinni, gegn Waiblingen 32:20, og hefur tveggja stiga forskot á Füchse Berlin í efsta sæti deildarinnar.
„nú tala ég nær eingöngu þýsku“
„Við höfum verið að leika hörku vörn og getum þar af leiðandi spilað okkur góðu seinni bylgju sem er auðvitað frábært og gerir okkur aðeins auðveldara fyrir að geta keyrt svona og halda uppi hraða í leikjum,“ segir Díana Dögg sem hefur leikið stórt hlutverki í liði á leiktíðinni, jafnt í vörn sem sókn. Auk tveggja marka í leiknum í gær þá var hún á bak við tíu marktækifæri. Um tíma lék Díana Dögg, sem er örvhent, á miðjunni sem er fremur óvenjulegt að örvhentir leikmenn gera. Það hefur hinsvegar verið hlutverki hennar á köflum á leiktíðinni.
„Ég spilaði allan leikinn frá upphafi til enda og síðustu tíu mínúturnar var ég á miðjunni í sókninni. Það er alltaf gaman að fá að stjórna spilinu,“ segir Díana Dögg glöð í bragði.
Ekkert vanmat í hópnum
Fimm umferðir eru eftir af 2. deildinni. Aðeins eitt lið fer beint upp og liðið í öðru sæti fer í umspil við lið úr 1. deild. Fækkað verður úr 16 liðum í 14 í 1. deild og því er hætt við að samkeppnin verði enn meiri á næstu leiktíð.
Þrátt fyrir gott gengi í síðustu leikjum og góða stöðu í deildinni er langt í Díana Dögg og samherjar geti farið að fagna. „Þjálfarinn heldur okkur vel niður á jörðinni. Það er ekki til vanmat í liðinu en trúin er mikil sem skiptir miklu máli,“ segir Díana Dögg sem flutti til Zwickau á síðasta sumri eftir nokkur ár hjá Val. Hún er með samning við Zwickau-liðið fram á mitt næsta ár.
Stefnir á að hefja meistaranám í Flugvélaverkfræði í ágúst
Hefur í mörg horn að líta
Hún hefur í mörg horn að líta fyrir utan handboltann. Samhliða honum lauk hún grunnnámi í vélaverkfræði frá HR í lok síðasta árs. Áður hafði hún lokið grunnnámi í fjámálaverkfræði við saman skóla. Til viðbótar er hún verkefnastjóri hjá verfræðistofunni CEFEG, þar sem hún hefur umsjón við að innleiða nýtt stýrikerfi í fyrirtæki sem framleiðir alls konar hluti fyrir bifreiðar, lestir, tölvur og alls kyns annan iðnað.
Meistaranám framundan
„Ég stefni á að byrja í meistaranámi í flugvélaverkfræði við Technische University í Dresden í ágúst,“ segir Díana Dögg og bætir við:. „Það þýðir ekkert að slaka á. Þýskan er líka öll að koma hjá mér og nú orðið tala ég nær eingöngu þýsku. Ég var með grunn í þýsku úr framhaldsskóla. Þegar maður heyrir ekkert annað en þýsku alla daga er hún fljót að koma og verða töm.“
Spennandi tækifæri
Díana Dögg gat ekki gefið kost á sér í landsliðið í forkeppni HM sem fram fór í Skopje fyrir rúmri viku. Vegna strangra reglna um sóttkví og sökum þess að ekki var hlé gert á keppni í 2. deildinni í alþjóðlegri landsliðsviku átti Díana Dögg erfitt um vik að gefa kost á sér í leikina í forkeppninni. Hópurinn fyrir leikina við Slóvena hefur ekki verið valinn auk þess sem ekki er víst að aðstæður leyfi að Díana Dögg taki þátt. Hún segir það spennandi ef tækifæri gefst til að vera með.
„Það væri frábært að geta spilað með landsliðinu enda virkilega mikilvægir leikir,“ sagði Díana Dögg Magnúsdóttir, handknattleikskona hjá BSV Sachsen Zwickau.