Þegar íslenska liðið hefur leikið fimm leiki á Evrópumótinu í handknattleik í Þýskalandi, er ljóst að nokkrir lykilmenn hafa alls ekki náð sér á strik; verið langt frá sínu besta. Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ólafur Ingi Magnússon eru greinilega ekki búnir að ná sér eftir erfið meiðsli, sem þeir hafa átt við.
Ómar skoraði aðeins tvö mörk gegn Frökkum í gær. Hann hefur skorað 18/8 mörk í fjórum leikjum. Gísli Þorgeir, hefur skorað fimm mörk í fimm leikjum.
Bjarki Már Elísson skoraði aðeins eitt mark gegn Þjóðverjum, eftir hraðaupphlaup á 16.50 mín., en þá höfðu liðið sjö mínútur á milli marka hjá Íslandi. Hann skoraði ekkert gegn Frökkum í gær. Bjarki Már var fimmti markahæsti leikmaðurinn á HM 2023, skoraði 45 mörk í 59 skottilraunum og var með 76% skotnýtingu. Nú hefur Bjarki Már skorað 13/1 mörk í fimm leikjum.
Aron Pálmarsson, sem hefur skorað 12 mörk í fimm leikjum, skoraði þrjú af fyrstu fjórum mörkum Íslands, gegn Þjóðverjum, 4:2, með langskotum. Hann lék aðeins 13 mín. í fyrri hálfleik, en náði sér ekki á strik er hann kom inná í seinni hálfleik. Bætti ekki við mörkum. Aron hefur aldrei náð sér á strik í stórmótum.
Vantar „skipstjóra“
Það er ljóst að það vantar „skipstjóra“ á íslensku skútuna, leikmann sem stjórnar sínum mönnum inni á vellinum og hvetur þá til dáða í mótvindi; lyftir andúmsloftinu upp á hærra plan í ólgusjó. Fá örlítið meiri diskant í leikinn!
Er rétt að munstra baráttumanninn Ými Örn Gíslason í hlutverkið? Ég bara spyr!
Það er auðvitað slæmt þegar bestu menn Íslands ganga ekki heilir til skógar, eins og leikstjórnandinn Gísli Þorgeir, sem er þekktur baráttumaður.
Færeyingar eru með „skipstjóra“ á sínum kútter
Sjómennirnir í næstu verbúð við Ísland, Færeyjum, hafa yfir að ráða ungum „skipstjóra“. Það er hinn 21 árs Elías Ellefsen á Skipagötu, sem leikur með Kiel. Hann er talinn einn af stórstjörnum framtíðarinnar í handknattleik og hefur sýnt leiðtogahæfileika með hinu skemmtilega og unga liði Færeyinga.
Elías getur ráðist til atlögu með hægri eða vinstri hönd á lofti, en hann getur skotið bæði með hægri og vinstri hendi. Styrkur hans er hvað hann hefur gott auga fyrir hvar meðspilarar hans eru staðsettir og nær að senda knöttinn frá sér er hann sér og finnur að hann sé kominn í þrönga stöðu í gegnumbrotum. Stoðsendingar hans til hægri eða vinstri eru eitraðar.
Gísli er stundum nokkuð ör og ákafur, þannig að hann hugsar ekki um að losa sig við knöttinn áður en hann er stöðvaður, og aukakast dæmt.
Gísli Þorgeir og Elías á Skipagøtu
Elías á Skipagøtu og Gísli Þorgeir eru lykilmenn í liðum sínum, en það hefur sést á EM að það er munur að vera heill eða hálfur maður. Elías skoraði 23 mörk (9-5-9) í þremur leikjum Færeyinga og átti fjölmargar stoðsendingar.
Elías var stoðsendingahæstur eftir riðlakeppnina á EM, þrjá leiki; með 25 sendingar, að meðaltali 8,33 stoðsendingar í leik. 23 mörk og 25 stoðsendingar er stórkostlegt afrek á EM.
Því miður er Gísli Þorgeir langt frá sínum fyrri styrk. Hann var rétt nýbyrjaður að leika með Magdeburg fyrir EM eftir erfið meiðsli á öxl.
Hér er stuttar upplýsingar um þessa tvo góðu leikstjórendur, sem báðir byrjuðu feril sinn í Þýskalandi með Kiel:
Gísli Þorgeir: Fæddur í Reykjavík 30. júlí 1999 (24 ára). Hæð 1.86 m, þyngd 95 kg. FH: 2015-2018. Kiel: 2018-2020. Magdeburg: 2020-
Elías á Skipagøtu: Fæddur í Kaupmannahöfn 19. maí 2002 (21 árs). Hæð 1.87 m, þyngd 92 kg. H71: 2019-2020. Sävehof: 2020-2023. Kiel: 2023-
Móðir Elíasar er Gunn Ellefsen, formaður Handknattleikssambands Færeyja.
Elías á Skipagötu er Ellefsen eftir eftirnafni móður sinnar og: á Skipagøtu, sem kemur frá föður hans.
Hann hóf að leika með liðinu Hoyvik (H71) sem er fyrir utan Þórshöfn. Til heiðurs æskufélaginu ber hann númerið 71 á keppnispeysu sinni, bæði með Kiel og landsliðinu. Þegar Elías á Skipagøtu byrjaði að leika með sænska liðinu IK Sävehof 2020 gerðu félagar hans góðlátlegt grín á nafnið; á Skipagötu. Þá fékk hann viðurnefnið „Skipper“ (Skipstjórinn) hjá félögum sínum.
Bróðir hans, Rói Ellefsen frá Skipagøtu, 20 ára, er einnig landsliðsmaður og tveir frændur hans léku á EM, Óli Mittún (18 ára) og Pauli Mittún, 21 árs.
Það verður gaman að fylgjast með landsliðum Íslands og Færeyja þroskast á næstu árum, en bæði liðin eru skipuð ungum leikmönnum sem eiga glæsta framtíð.
Sungið og dansað; Ormurin langi!
Mikil stemning var í kringum landslið Færeyja í Berlín, þar sem liðið lék. Íbúar Færeyja eru um 50 þúsund. Rúmlega fimm þúsund Færeyingar fóru til Berlínar til að fylgja sínum mönnum og var sagt að stemningin hafi verið eftir leiki eins og á Ólafsvöku; og dansur stigin aftan á; sungið og dansað Ormurin langi og Ólafur reið með björgum fram… Já, Færeyingar mættu til Berlínar til að skemmta sér og fögnuðurinn var mikill þegar þeir náðu óvænt jafntefli við Noreg!
Færeyingar eru farnir heim frá Þýskalandi, en erfiðir leikir bíða Íslendinga í Köln, gegn Króötum og Austurríkismönnum.
Auf Wiedersehn!
Sigmundur Ó. Steinarsson.