Landsliðskonan, kjölfesta Fram-liðsins og handknattleikskona ársins 2020, Steinunn Björnsdóttir, fékk staðfest hjá lækni í dag að hún er með slitið krossband í hægra hné. Hún greindi handbolta.is frá þessu áðan en hún var þá nýkomin úr læknisskoðun.
„Þetta er það sem ég óttaðist en vonaðist alltaf til að þetta væri ekki eins og allir héldu,“ sagði Steinunn við handbolta.is. Hún sagði tíðindin vera sem kjaftshögg þótt hún hafi reynt að búa sig undir þau. „Ég bara trúi þessu ekki.“
Steinunn á tíma í aðgerð 26. apríl og eins og hjá öðrum sem fyrir þessum slæmum meiðslum verða þá tekur við strangt endurhæfingaferli að lokinni aðgerð. Steinunn tekur vart upp þráðinn á handboltavellinum fyrr en komið verður inn á næsta ár.
Steinunn meiddist eftir tæplega 15 mínútur í viðureign Íslands og Norður-Makedóníu í forkeppni heimsmeistaramótsins í Skopje 19. mars. Hún hafði nýlokið við að skora sjöunda mark Íslands í leiknum eftir hraðaupphlaup þegar hún fékk högg á hnéið þegar hún lenti á fremur stömu keppnisgólfi vallarins í Skopje. Fljótlega vaknaði grunur um að krossband gæti verið slitið.