„Við komum mjög flatir inn í síðari hálfleikinn. Ég hef bara alls engar skýringar á því svona strax eftir leik. Sex marka forskot rann fljótt úr höndum okkar vegna þess að við vorum í vandræðum með að skora. Eins og í flestum öðrum leikjum okkar á mótinu þá á markmaðurinn í hinu liðinu stórleik,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í handknattleik niðurlútur þegar handbolti.is hitti hann að máli eftir að íslenska landsliðið hafði lokið keppni á Evrópumótinu í handknattleik í Köln í dag.
Sigur á Austurríki í lokaleiknum var ekki nægilega stór til þess að tryggja íslenska liðinu fjórða sæti riðilsins og þar með þátttökurétt í forkeppni Ólympíuleikanna, nokkuð sem stefnt var að.
Með tögl og hagldir
„Við vorum mjög góðir í fyrri hálfleik. Tókst að ganga á lagið og gera margt mjög vel. Við virtumst vera með tök á leiknum þegar flatneskja tók við framan af síðari hálfleik,“ sagði Snorri Steinn ennfremur.
Færanýting er Akkilesarhæll okkar
„Eðlileg færanýting í leiknum hefði sjálfsagt nægt okkur til fimm marka sigurs í leiknum sem var það sem við þurftum til þess að skjóta austurríska liðinu ref fyrir rass í kapphlaupinu um Ólympíusæti. Færanýting hefur verið okkar Akkilesarhæll á mótinu. Menn eru að leggja sig fram en það dugir ekki til. Eðlileg nýting opinna færa verður að vera í lagi til þess að ná langt á stórmóti. Það eins og ýmislegt annað hefur ekki verið viðunandi,“ sagði Snorri Steinn sem dró ekki fjöður yfir að árangurinn á mótinu væri vonbrigði.
Heilt yfir vonbrigði
„Okkur hefur vantað talsvert upp á hér og þar. Vissulega hafa komið góðir kaflar en heilt yfir ég alls ekki sáttur, frammistaðan veldur mér vonbrigðum,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í handknattleik karla í samtali við handbolta.is í lok fyrsta stórmóts síns í stóli landsliðsþjálfara.
Niðurstaðan eru þrír sigrar, þrjú töp og eitt jafntefli, 10. sæti af 24 þátttökuliðum.