- Auglýsing -
- Vika er liðin frá því að íslenska karlalandsliðið lék sinn síðasta leik á Evrópumótinu í handknattleik sem fram fór Þýskalandi. Endasprettur með tveimur sigur leikjunum nægði ekki til að liðið næði sínu markmiði, að öngla í sæti í forkeppni Ólympíuleikanna.
- Einhverjir naga sig í handabökin. Leikmenn og landsliðsþjálfari hafa lýst vonbrigðum sínum, bæði í viðtölum og í færslum á samfélagsmiðlum. Aðrir hafa hert upp hugann. Allir líta í eigin barm.
- Flestir vonuðust eftir betri árangri, leikmenn, þjálfarar sem og margir landsmenn sem fóru m.a. í þúsundavís til Þýskalands vonglaðir um að taka sumrinu mót eða því sem næst.
- Gamla góða umræðan um að boginn væri spenntur of hátt og fylgt hefur a.m.k. síðan ég fór að fylgjast með landsliðinu snemma á áttunda áratug síðustu aldar. Ekkert er nýtt undir sólinni.
- Víða eru menn vonsviknir. Sumir Danir eiga erfitt með að sætta sig við að hafa ekki unnið gullverðlaun að þessu sinni. Alfreð okkar Gíslason liggur undir gagnrýni fyrir að hafa „aðeins“ náð fjórða sæti með sitt lítt reynda þýska landslið á heimavelli.
- Margir hafa verið óvægnir í skoðunum og til eru þeir sem síst hafa sparað stóru orðin, þá helst þeir sem aldrei hafa staðið í sporum leikmanna og þjálfara og halda að árangur sé sjálfgefinn. Slíkt er því miður orðinn siður margra og virðist frekar fara vaxandi en hitt. Aðgátin og sálin er löngu gleymd.
- Og svo sígilda milljóndollaraspurningin: „Af hverju var Páll með en ekki Pétur? Pétur hefði gert gæfumuninn.“
- „Ég held að flestir heima séu hættir að kalla okkur íslenska landsliðið en ekki strákana okkar,“ sagði leikmaður landsliðsins í samtali við handbolta.is undir lok mótsins. Þótt þessu væri slegið fram í gamni var ljóst að alvöru gætti undir niðri.
- Eitt sinn var ég sjálfur í þeim hópi sem var óspar á stóru orðin þegar mér þótt landsliðinu og þjálfurum bregðast bogalistin. Tíðkuðust jafnvel að draga fram hin breiðari spjótin.
- Með árunum hef ég reynt að temja mér hófsemi í orðavali og láta fagmönnum og sérfræðingum það eftir enda er framboðið nægt og e.t.v. ekki á bætandi. Þar á ofan er ljóst að mínar umvandanir höfðu ekkert að segja ef einhver tók þær þá hátíðlega á annað borð.
- Svo mikið veit ég þó að leikmenn og þjálfarar draga sinn lærdóm af þátttökunni að þessu sinni eins og endranær. Þar eru á ferðinni fagmenn sem hafa lifibrauð sitt af því að æfa, leika, þjálfa og rýna í handknattleik. Enn og aftur mæta menn reynslunni ríkari á næsta stórmót eftir á. Þá verða e.t.v. önnur ljón í veginum.
- „Við bara lærum af þessu,“ sagði fyrrverandi vinnufélagi minn af yfirvegun og einlægni þegar henti hann að verða á í messunni. Læt ég það vera lokaorð mín um leið og ég horfi út í hríðarbylinn fyrir utan gluggann og hlakka til HM karla sem hefst eftir 11 mánuði.
Ívar Benediktsson, [email protected]
- Auglýsing -