Stjarnan vann stórsigur á Aftureldingu, 32:20, að Varmá í kvöld í uppgjöri liðanna um sjötta sæti Olísdeildar kvenna í handknattleik. Aftureldingarliðið var skrefi á eftir lengst af og missti síðan alla stjórn á leik sínum síðustu 20 mínúturnar.
Stjarnan er komin í hið eftirsótta sjötta sæti deildarinnar með sjö stig en Afturelding færðist niður í sjöunda sætið, stigi á eftir og stigi fyrir ofan KA/Þór sem rekur lestina.
Stjarnan var fjórum mörkum yfir í hálfleik, 14:10. Mosfellingar náðu að keyra upp hraðann og koma Stjörnunni í opna skjöldu í upphafi síðari hálfleiks. Munurinn varð minnstur tvö mörk, 18:16, þegar 20 mínútur voru til leiksloka. Eftir það gerðu leikmenn Aftureldingar hvert glappaskotið á fætur öðru. Boltinn tapaðist hvað eftir annað auk þess sem markskot voru ómarkviss.
Stjarnan lék sér að framliggjandi staðri vörn Mosfellinga. Jafn og þétt jókst munurinn og segja má að síðasti stundarfjórðunginn hafi verið einstefna á vellinum. Slíkir voru yfirburðir Stjörnunnar. Leikur Aftureldingar var í handaskolum.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.
Mörk Aftureldingar: Sylvía Björt Blöndal 9, Stefanía Ósk Engilbertsdóttir 4, Hildur Lilja Jónsdóttir 3, Susan Ines Gamboa 2, Ragnhildur Hjartardóttir 1, Katrín Helga Davíðsdóttir 1.
Varin skot: Saga Sif Gísladóttir 7.
Mörk Stjörnunnar: Embla Steindórsdóttir 7, Helena Rut Örvarsdóttir 7, Hanna Guðrún Hauksdóttir 5, Eva Björk Davíðsdóttir 4, Anna Lára Davíðsdóttir 2, Elísabet Gunnarsdóttir 2, Vigdís Arna Hjartardóttir 2, Guðmunda Auður Guðjónsdóttir 1, Ivana Jorna Meincke 1, Karólína Ósk Sigurlaugardóttir 1.
Varin skot: Darija Zecevic 13, Elísabet Millý Elíasardóttir 1.
Tölfræðin hjá HBStatz.