- Auglýsing -
- Þótt lítið sé um að vera innanvallar í norskum handknattleik þessar vikurnar þá situr Halldór Stefán Haraldsson þjálfari B-deildarliðsins Volda ekki með hendur í skauti og bíður eftir sumrinu. Hann tilkynnti í gær að markvörðurinn Hante Hamel komi til liðsins fyrir næsta keppnistímabil. Hamel er að verða 22 ára og er að ljúka samningi sínum hjá hollenska úrvalsdeildarliðinu Geonius V&L.
- Sebastian Hinze, þjálfari Bergischer HC sem Arnór Þór Gunnarsson leikur með, er sterklega orðaður við starf þjálfara Rhein-Neckar Löwen frá og með miðju ári 2022. Þá rennur samningur hans hjá Bergischer HC út. Eins og kom fram á dögunum hyggst Hinze ekki skrifa undir nýjan saming við Bergischer HC eftir áratug við þjálfun liðsins. Rhein-Neckar Löwen verður án þjálfara frá og með miðju ári en núverandi þjálfari, Martin Schwalb, hefur fyrir nokkru sagt starfi sínu lausu frá og með lokum keppnistímabilsins.
- Roland Eradze og félagar í Motor Zaporozhye unnu Nexe í Austur-Evrópudeildinni í handknattleik og eru efstir í B-riðli keppninnar sem hefur mátt muna sinn fífil fegri. Motor hefur unnið fjóra leiki í B-riðli en tapað tveimur.
- Ungverska landsliðskonan og leikstjórnandinn, Anikó Kovacsics, fór úr axlarlið í viðureign FTC og Alba Fehérvár í ungversku 1.deildinni. Ljóst er að hún tekur ekki meira þátt í leikjum FTC á leiktíðinninn. Um leið getur svo farið að hún geti ekki verið með ungverska landsliðinu á Ólympíuleikunum í sumar.
- Auglýsing -