„Við lékum vel í sjö á sex til að byrja með en síðan fórum við að klikka á dauðafærum á kafla og þá náðum við að nálgast Haukana sem voru alltaf með forystuna. Við áttum líka að halda betur því plani sem var lagt upp með, leika af yfirvegun í stað þess að fara í að drífa okkur áfram í hverri sókn,“ sagði Andri Berg Haraldsson í samtali við handbolta.is í kvöld eftir sex marka tap Víkinga fyrir Haukum á Ásvöllum, 28:22, í 15. umferð Olísdeild karla.
Andri Berg stýrði Víkingsliðinu í kvöld ásamt Þorbergi Aðalsteinssyni í fjarveru Jóns Gunnlaugs Viggóssonar þjálfara sem er í leyfi af persónulegum ástæðum.
„Ég er ánægður með varnarleikinn, ekki síst í síðari hálfleik þegar hann var frábær. Mikill vilji og barátta var í mönnum. Eitthvað sem við getum byggt á fyrir næstu leiki,“ sagði Andri Berg ennfremur en Víkingur fær Selfoss í heimsókn í næstu umferð. Liðin eru í tveimur neðstu sætum deildarinnar.
Verðum að fækka tæknifeilum
„Við verðum bara að taka skotæfingu, æfa dauðafærin og vítaköstin. Einnig þarf að fækka tæknifeilunum sem hafa verið að leika okkur grátt. Það kemur ekkert annað til greina en að halda áfram. Enn eru sjö umferðir eftir og nóg af stigum í pottinum. Við munum halda áfram að byggja ofan á þennan leik og viðureignina við FH í síðustu umferð sem var einnig lengst af góð,“ sagði Andri Berg Haraldsson ákveðinn þegar handbolti.is hitti hann að máli á Ásvöllum í kvöld.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.